Enski boltinn

Sáttur með sigurinn og vissi ekki að Fred gæti skotið með hægri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralf Rangnick fagnar sigurmarki sinna manna í dag.
Ralf Rangnick fagnar sigurmarki sinna manna í dag. EPA-EFE/PETER POWELL

Þjóðverjinn Ralf Rangnick var mjög ánægður með sinn fyrsta sigur sem þjálfari Manchester United. Það eina sem vantaði voru fleiri mörk.

Rangnick stýrði Man United gegn Crystal Palace í dag eftir að hafa horft á United vinna Arsenal 3-2 á dögunum. Hann var mjög ánægður með það sem hann sá í leik dagsins en Palace hafði unnið síðustu tvo leiki liðanna á Old Trafford.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu liðsins. Sérstaklega fyrsta hálftímann, við pressuðum frábærlega. Það eina sem vantaði var 1-0 eða 2-0. Þökk sé því hvernig við vörðumst þá vorum við með öll völd á vellinum,“ sagði Rangnick í viðtali eftir leik en staðan var markalaus í hálfleik.

„Að halda marki okkar hreinu var mikilvægasti hluturinn í dag. Það er það sem við þurfum að bæta hvað helst, við verðum að hætta að fá á okkur mörk. Eftir aðeins eina æfingu þá er ég mjög ánægður, við spiluðum mun betur en ég vonaðist til,“ bætti Rangnick við.

„Við reyndum að spila af miklum ákafa og halda þeim eins langt frá markinu okkar og mögulegt var. Það gekk nær allan leikinn fyrir utan mögulega síðustu fimm mínútur leiksins.“

Fred kom öllum á óvart með því að skora sigurmarkið með góðu hægri fótarskoti. Það kom nýjum þjálfara hans sérstaklega á óvart.

„Ég þurfti að spyrja aðstoðarmenn mína hvort þetta hefði verið hægri fóturinn á Fred, ég hélt hann gæti aðeins skotið með vinstri. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd.“

„Uppbyggingarstarf er alltaf auðveldara ef maður nær árangri. Við verðum að halda marki okkar hreinu oftar en aðeins í dag og við þurfum að vera betri að skapa færi. Allt í allt var ég samt sáttur með frammistöðu okkar í dag,“ sagði Rangnick að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.