Veður

Vara við hvassviðri og stormi á morgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Gefnar hafa verið út gular viðvaranir í fjórum landshlutum.
Gefnar hafa verið út gular viðvaranir í fjórum landshlutum. Veðurstofa Íslands

Búast má við hvassviðri eða stormi víða á landinu á morgun og hefur Veðurstofan gefið út gular viðvaranir vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðausturlandi og Vestfjörðum.

Fyrsta viðvörunin tekur gildi á Suðurlandi klukkan 15 á morgun og bætast hinar við þegar líður á daginn. Getur vindur mest náð allt að 28 metrum á sekúndu á Suðausturlandi en verður annars staðar á bilinu 18 til 25 metrar á sekúndu. Víða má gera ráð fyrir mjög snörpum vindhviðum við fjöll þar sem vindhraði getur jafnvel farið yfir 35 metra á sekúndu.

Getur veður því verið varasamt í landshlutunum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Einnig má búast með snjókomu eða éljagangi með skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á Suðurlandi, Suðausturlandi og Vestfjörðum. Má því búast við samgöngutruflunum og lokunum á vegum.

Á landsvísu er spáð vaxandi austanátt á morgun, 10 til 18 metrum á sekúndu eftir hádegi, en 18 til 23 metrum á sekúndu með suðurströndinni. Snjókoma eða slydda og hiti verður nálægt frostmarki, en talsverð rigning á láglendi á sunnanverðu landinu seinnipartinn með hita að 8 stigum á þeim slóðum. Bætir í vind með suðurströndinni annað kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×