Veður

Lands­menn varaðir við ó­nauð­syn­legum ferða­lögum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vindhviður gætu orðið nokkrar við fjöll og háhýsi í dag. 
Vindhviður gætu orðið nokkrar við fjöll og háhýsi í dag.  Vísir/Vilhelm

Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi víðast hvar á landinu, nema á Norðurlandi og í Breiðafirði þar sem gular viðvaranir eru í gildi. Um er að ræða aðra haustlægðina sem gengur yfir landið. Búast má við miklum vindum og snörpum vindhviðum, einkum við fjöll og háhýsi og fólk varað við því að ferðast milli landshluta.

„Já, það er lægð hérna skammt suðvestur af landinu sem veldur því að það er mjög hvasst víða, bæði á norðvestanverðu landinu og með suðurströndinni og mjög mikil úrkoma um allt land,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Lægðin kemur til með að ganga norðaustur yfir landið sem veldur því að verulega mun hvessa á sunnanverðu landinu eftir hádegi. Búast má við hríðarbyl á fjallvegum á norðanverðum Vestfjörðum í dag.

„Það er mjög blint þar á vegum og örugglega erfitt yfirferðar, allavega fram á kvöld,“ segir Elín. 

Veðrið mun ganga niður víðast hvar á landinu í kvöld en áfram eru viðvaranir í gildi á norðaustanverðu landinu á morgun. Fólk er hvatt til að ferðast ekki á meðan appelsínugular viðvaranir eru í gildi.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, hvetur landsmenn til að halda sig heima í dag. Vísir/Vilhelm

„Ekki á meðan það eru appelsínugular viðvaranir í gildi. Í gulum viðvörunum er yfirleitt allt í lagi að vera á ferðinni ef fólk er öruggt að keyra í svona veðri. Það er alveg hægt að ganga og hjóla hérna innanbæjar í þessu veðri en það verður erfiðara eftir því sem vindur eykst í dag og þá erum við til dæmis að vara við að það gætu orðið snarpar vindhviður við há hús hérna vestantil í borginni,“ segir Elín. 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitir í viðbragðsstöðu vegna lægðarinnar.

„Það hefur verið rólegt hjá björgunarsveitum núna í morgun, við erum vissulega mjög meðvituð um þessar viðvaranir sem eru núna orðnar appelsínugular og björgunarsveitir hafa núna þegar haustið fór að láta á sér kræla þá eru björgunarsveitir um allt land búnar að yfirfara búnaðinn sinn og eru tilbúnar eins og alltaf,“ segir Davíð. 

Til að létta björgunarsveitunum lífið hugi landsmenn að lausamunum.

„Það er kannski helsta hættan snemma hausts í starfi björgunarsveita að verkefnin okkar virðast snúa mikið um fok á lausamunum.“


Tengdar fréttir

Spá allt að 40 m/s undir Eyjafjöllum

Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir stóran hluta landsins í dag og gul viðvörun á Breiðafirði og á Norðurlandi. Fólk er varað frá því að vera á ferðinni og þá ráðleggur Veðurstofa landsmönnum að ganga frá lausamunum. Á Suðurlandi má gera ráð fyrir talsverðri rigningu með tilheyrandi vatnavöxtum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.