Umfjöllun: Fylkir - Þróttur R. 1-1 | Eitt stig gerir lítið fyrir Fylkiskonur

Dagbjört Lena skrifar
Fylkiskonur fengu gott stig í kvöld en eru í þrátt fyrir það áfram í mikilli fallhættu.
Fylkiskonur fengu gott stig í kvöld en eru í þrátt fyrir það áfram í mikilli fallhættu. Vísir/Bára Dröfn

Fylkir og Þróttur skildu jöfn, 1-1, í lokaleik 16. umferðar Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Fylkiskonur eru áfram í fallsæti og úrslit kvöldsins voru liðinu ekki hliðholl.

Það var mikil spenna í Árbænum í kvöld þegar Fylkir fékk til sín Þrótt Reykjavík. Í 16. umferð Pepsi Max deildar kvenna. Leikurinn var kaflaskiptur en þegar Þróttur virtist ætla að sigla sigrinum heim stigu Fylkiskonur upp og jöfnuðu.

Það var hart barist strax á fyrstu mínútu en bæði lið komu inn í leikinn af fullum krafti. Boltinn lá mun meira á hlið heimakvenna þar sem Þróttur byrjuðu leikinn á mikilli pressu. Það gerði Fylkiskonum erfitt fyrir en þeim tókst varla að skapa sér almennilegt færi meiri hluta fyrri hálfleiks.

Þegar rétt rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum átti Þróttur frábæra sókn þar sem Dani Rhodes óð upp hægri kantinn og reyndi fast skot á mark Fylkis en Tinna Brá varði. Hún var þó ekki með fullt tak á boltanum og varð fyrir því óhappi að missa boltann í fótinn á sér og endaði hann hjá Hildi Egilsdóttur sem var mætt inn í teig og þrumaði boltanum í netið. Þróttur komnar 1-0 yfir.

Fylkiskonum skorti líf það sem eftir leið af fyrri hálfleik og héldu Þróttur áfram að sækja hart á mark andstæðinganna. Annað markið lá í loftinu hjá Þrótti en aldrei kom það.

Á 38. mínútu fengu Þróttur dæmt á sig víti eftir baráttu Helenu Óskar við Jelenu Tinnu og Írisi Dögg en sú fyrrnefnda fékk einnig að lýta gula spjaldið. Þórhildur Þórhallsdóttir kom sér fyrir á vítapunktinum en allt kom fyrir ekki og var skotið laflaust í vinstra hornið. Íris Dögg sá gjörsamlega við henni og var mætt í hornið þegar dómarinn flautaði. Svekkjandi fyrir Fylki.

Í raun má segja að í hálfleik hafi Fylkiskonur snúið við blaðinu og mættu þær aftur til leiks með glænýtt lið. Það var miklu meira líf í þeim og spilamennskan bættist til muna. Á 51. mínútu fékk Helena Ósk boltann vinstra megin í teig Þróttar eftir virkilega gott spil heimakvenna. Hún kom sér í skotstöðu og skrúfaði boltann laglega upp í fjær hornið og jafnaði stöðuna fyrir sitt lið.

Það þurfti ekki meira því eftir mark Fylkis mátti sjá alvöru leik myndast. Bæði lið spiluðu af mikilli baráttu það sem eftir leið leiks. Undir lokin fékk Íris Una Þórðardóttir að lýta rauða spjaldið eftir aðra áminningu sýna í leiknum. Þar með hafði hún lokið leik en það skipti þó litlu því stuttu seinna flautaði dómarinn leikinn af, staðan 1-1 og bæði lið með eitt stig hvort.

Af hverju var jafntefli?

Bæði lið spiluðu af mikilli ákefð og krafti í kvöld. Þróttur voru gjörsamlega með yfirhöndina í fyrri hálfleik. Þær pressuðu vel og Fylkir áttu erfitt með að ná að spila boltanum og skapa sér færi. Í síðari hálfleik lifnuðu Fylkiskonur við og fóru að sækja töluvert meira á mark Þróttar. Annað mark leiksins lá lengi í loftinu og hefðu bæði lið geta átt það.

Hverjar stóðu upp úr?

Helena Ósk Hálfdánardóttir átti virkilega góðan leik fyrir Fylki í dag en hún skoraði eina mark síns í dag. Hún fiskaði einnig eina víti leiksins. Hún var alltaf á hárréttum stað og vissi nákvæmlega hvert hennar hlutverk væri. María Eva Eyjólfsdóttir átti einnig mjög fínan leik fyrir sitt lið í dag.

Í liði Þróttar voru það Katherine Amanda Cousins og Dina Rhodes sem stóðu upp úr. Þær áttu báðar mjög flottan leik í dag en þær sköpuðu mörg færi fyrir sitt lið, voru duglegar að pressa og sýndu mikið líf inni á vellinum.

Hvað gekk illa?

Bæði lið sýndu sínar góðu og slæmu hliðarí kvöld. Fylki gekk illa að sækja á í fyrri hálfleik en eftir mark Þróttar misstu þær taktinn örlítið niður, sem þær náðu þó upp í síðari hálfleik. Þróttur átti erfitt með að verjast ákefðinni í Fylkisliðinu í seinni hálfleik. Eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik var eins og þær væru búnar að vinna leikinn og pældu lítið í að klára leikinn í alvöru. Þær misstu þetta alveg niður í síðari hálfleik, ekki í fyrsta sinn á tímabilinu.

Hvað gerist næst?

Fylkir mun leika aftur á heimavelli á laugardaginn þegar þær fá Þór/Ka í heimsókn. Þann sama dag munu Þróttur mæta ÍBV.

Nik Anthony: Missum kraftinn

„Það hefur gerst nokkrum sinnum á tímabilinu að við skorum fyrsta mark leiksins og missum svo kraftinn, af einhverri ástæðu, ég þarf að finna út úr því. Síðan leyfum við hinu liðinu bara að komast yfir okkur. Í öðrum leikjum höfum við að vísu náð að skora annað mark og klárað þá þannig. Ég myndi ekki segja að við höfuð verið alveg skelfilegar í seinni hálfleik, við vorum með stjórnina meiri hluta leiks. En Helenu Ósk tekst að skora frábært mark sem kemur þeim aftur inn í leikinn. Auðvitað klúðruðu þær víti en við þurfum að komast að því afhverju við leyfum anstæðingunum alltaf að komast inn í leikinn aftur.“ sagði Nik Anthony Chamberlain eftir leik.

„Ég er svona 90% ánægður með liðið í dag. Fylkir klúðraði víti í fyrri hálfleik, það er hægt að þræta um hvort það hafi verið réttur dómur eða ekki. En svo hefðum við átt að fá víti í seinni hálfleik og dómarinn taldi sér trú um það að hann hafi ekki séð neitt. Við fengum ekki marga sénsa, augljóslega. Við vörðumst samt sem áður vel stærsta hluta leiks, við vorum með góða hreyfingu á boltanum, við hefðu átt að skora í lokin. Dina Rhodes getur verið smá einspilari sem hefur ekki reynst vel. En eins og ég segi þá er ég svona 90% ánægður.“

„Það verður erfiður leikur á laugardaginn. Við spilum við ÍBV á heimavelli, við þurfum að vinna hann. Við viljum fá þriðja sætið. Ég vil bara tryggja að við munum klára þetta vel og vonandi koma okkur í þriðja sæti. Við erum búin að vera á góðu róli á heimavelli.“ segir Nik.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.