Veður

Á­fram spáð auknum leysingum í hlýindum norðan- og austan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill flaumur er nú í mörgum ám á Norðurlandi.
Mikill flaumur er nú í mörgum ám á Norðurlandi. Vísir/Erla Björg

Veðurspá gerir ráð fyrir að á vestanverðu landinu, þar sem sólin er á bak við ský, verði frekar svalt í veðri í dag og átta til þrettán gráðu hiti. Áfram verður þó sól og hlýtt austantil með hita allt að 26 stigum.

Reikna má með sunnan og suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu í dag, en tíu til fimmtán við fjöll á norðan- og norðvestanverðu landinu í fyrstu.

Þokusúld eða rigning með köflum vestanlands en léttskýjað austanlands.

Áfram er spáð er auknum leysingum í hlýindum á norðan- og austanverðu landinu. Má því búast við auknu vatnsrennsli og hækkun vatnsborðs í ám og lækjum, sér í lagi þar sem hlýtt er í veðri og snjór til fjalla. Mikið rennsli er nú í ám sem renna í Eyjafjörðinn og Hörgá og Fnjóská flæðir yfir bakka sína.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að um helgina líti út fyrir að létti til vestanlands og verði sólríkt jafnvel þar. Má reikna með hita, fimmtán til 22 stigum þá, þó að líkur séu á stöku skúrum á víð og dreif. Líkur eru á þoku við sjávarsíðuna um allt landið á morgun og heldur svalara á austanverðu landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag og laugardag: Hæg breytileg átt eða hafgola og bjart með köflum, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 15 til 22 stig, en svalara við sjávarsíðuna.

Á sunnudag og mánudag: Hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en sums staðar þokusúld við ströndina, einkum austantil. Líkur á stöku skúrum og áfram hlýtt í veðri.

Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en sums staðar þokuloft við austurströndina og stöku skúrir á víð og dreif. Hiti víða 10 til 19 stig.

Á miðvikudag: Útlit fyrir hæga breytilega átt eða hafgolu og bjart með köflum, en líkur á þoku við svávarsíðuna. Hiti breytist lítið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.