Erlent

ESB í mál við AstraZeneca

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
AstraZeneca afhenti ekki nógu marga skammta, segir ESB.
AstraZeneca afhenti ekki nógu marga skammta, segir ESB. epa/Fehim Demir

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagðist í dag hafa höfðað mál gegn lyfjaframleiðandanum AstraZeneca vegna vanefnda á samningum.

Fyrirtækið er sakað um að hafa afhent færri skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni en um var samið.

Stefan de Keersmaecker, upplýsingafulltrúi framkvæmdastjórnarinnar, sagði á fréttamannafundi að AstraZeneca hafi ekki virt skilmála samningsins. „Það sem skiptir okkur máli er að við viljum að þeir skammtar sem við eigum rétt á séu afhentir tímanlega, eins og var lofað. Þess vegna hefur framkvæmdastjórnin höfðað mál fyrir hönd aðildarríkjanna 27, sem eru samstíga í málinu.“

Samkvæmt AP-fréttaveitunni var samið um kaup á minnst 300 milljónum skammta. AstraZeneca hafi afhent 30 milljónir á fyrsta ársfjórðungi og býst við að afhenda 70 milljónir á öðrum ársfjórðungi. Mun minna en þær 180 milljónir sem um var samið.

Framleiðandinn hefur áður sagt að tölurnar í samningnum hafi ekki verið bein loforð heldur markmið. Vandamál sem komu upp þegar framleiðslugetan var aukin útskýri töfina.

„AstraZeneca hefur að öllu leyti staðið við samninginn við Evrópusambandið og mun svara fyrir sig fyrir dómi. Að okkar mati eru þessar ásakanir tilhæfulausar og við fögnum tækifærinu til að leysa þetta mál eins fljótt og auðið er,“ sagði í tilkynningu frá AstraZeneca í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×