Enski boltinn

Manchester City tapaði 126 milljónum punda á síðustu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester City tapaði 126 milljónum punda á síðustu leiktíð. 
Manchester City tapaði 126 milljónum punda á síðustu leiktíð.  Lindsey Parnaby/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur gefið út að félagið hafi tapað 126 milljónum punda á síðustu leiktíð. Gerir það rúma 22 milljarða íslenskra króna. Þar spilar kórónuveirufaraldurinn sinn þátt.

Kórónufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á nær öll fyrirtæki heims undanfarna mánuði. Knattspyrnufélög eru þar á meðal. Stærstu félögin tapa eðlilega mestum pening en geta bætt upp fyrir það á ýmsa vegu. Á meðan eru smærri félög að leggja upp laupana.

Manchester City hefur nú birt ársreikninga sína og þar kemur fram að félagið hafi tapað 126 milljónum punda á síðustu leiktíð, 2019-2020. Tekjur félagsins minnkuðu um 11 prósent en voru samt sem áður 478.4 milljónir punda samkvæmt frétt BBC.

Inn í í jöfnuna vantar tekjur vegna sölu leikmanna og þá aðallega vegna Leroy Sané sem fór til Evrópumeistara Bayern München fyrir 44.7 milljónir punda. Með bónusgreiðslum getur upphæðin orðið 54.8 milljónir punda.

Þá vantar einnig tekjur City vegna þátttöku í Meistaradeildinni en liðið komst í 8-liða úrslit. Reikna má með að félagið hafi fengið tíu milljónir punda fyrir það eitt að komast úr 16-liða úrslitunum í 8-liða úrslit.

Forráðamenn City reikna með að faraldurinn hafi áhrif á komandi tímabil líka en tap félagsins ætti þó ekki að vera meira en 60 milljónir punda. Þá mun félagið enn geta eytt peningum í sumar.

Það er ef Pep Guardiola, þjálfari liðsins, hefur áhuga á því.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.