Enski boltinn

City í áfalli yfir að Liverpool vilji þá úr Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool er með 25 stiga forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Liverpool er með 25 stiga forskot á Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty

Manchester City er í áfalli yfir því að Liverpool vilji ekki að félagið fái að keppa í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Í síðasta mánuði var City dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni vegna brota á reglum Knattspyrnusambands Evrópu á reglum um fjárhagslega háttvísi. City áfrýjaði dóminum til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS, fljótlega eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Í gær bárust fréttir af því að átta af tíu efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar vilji ekki að City fái þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili og sendu beiðni til CAS þess efnis. Einu félögin sem voru mótfallin því að City yrði sett í bann voru Sheffield United og auðvitað City.

Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla er City afar undrandi og í áfalli yfir því að Liverpool vilji ekki að Englandsmeistararnir taki þátt í Meistaradeildinni á næsta tímabili. 

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku deildarinnar og City finnst skrítið að toppliðið sé í hópi þeirra sem vilja þá úr Meistaradeildinni. Það sé hins vegar skiljanlegt að liðin fyrir neðan City setji sig upp á móti því að Manchester-liðið keppi í Meistaradeildinni.

Talsverðar líkur eru taldar á því að áfrýjun City verði ekki tekin fyrir byrjun næsta tímabils í Meistaradeildinni. Líkt og aðrar keppnir hefur Meistaradeildin verið sett á ís vegna kórónuveirufaraldursins. 

Félögin sem vilja fá City úr Meistaradeildinni ku vera búin að fá sig fullsadda af því að félagið komist upp með að fara á svig við reglur UEFA um fjárhagslega háttvísi án þess að fá refsingu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.