Enski boltinn

Bronze fyrst Breta til að vera kosin best

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lucy Bronze varð í gær fyrsti Bretinn til að vera kosin leikmaður ársins í kosningu FIFA. Eru það landsliðsþjálfarar og fyrirliðar sem og blaðamenn sem hafa kosningarétt.
Lucy Bronze varð í gær fyrsti Bretinn til að vera kosin leikmaður ársins í kosningu FIFA. Eru það landsliðsþjálfarar og fyrirliðar sem og blaðamenn sem hafa kosningarétt. Jay Barratt/Getty Images

Lucy Bronze var í gær valin leikmaður ársins 2020 í kosningu Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA. Er hún fyrst Breta til að vinna slík verðlaun, sama hvort um er að ræða í karla- eða kvennaflokki.

Hin 29 ára gamla Bronze sneri aftur til Manchester City í Englandi eftir þrjú ár hjá Lyon í Frakklandi. Var félagið Evrópu- og Frakklandsmeistari öll þrjú ár hennar þar.

Vísir greindi frá kosningunni í gær en samherjar Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, núverandi og fyrrverandi, voru áberandi í kosningunni. Bronze lék úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Söru Björk fyrr á þessu ári og Pernille Harder lék með landsliðsfyrirliða Íslands hjá Wolfsburg.

„Vá, enn óvænt ánægja. Bara að vera tilnefnd ásamt hinum tveimur leikmönnunum sem ég þekki vel, frábærir leikmenn og manneskjur,“ sagði Bronze er henni var tilkynnt að hún hefði unnið. Pernille Harder og Wendie Renard, miðvörður Lyon og franska landsliðsins, voru í öðru og þriðja sæti.

Harder var á dögunum valin besta knattspyrnukona í heimi af The Guardian. Þar var Bronze í þriðja sæti.

„Ég á í raun engin orð til að lýsa hvernig mér líður núna. Ef 2020 hefur kennt okkur eitthvað þá er það að virða hvert augnablik. Ég kann því enn betur að meta að vinna þessi verðlaun núna og mun aldrei gleyma þessu augnabliki.“

Bronze var mikilvægur hlekkur í mögnuðu liði Lyon-liðinu sem vann þrennuna á síðustu leiktíð. Wendy Renard, sem var í efstu þremur sætum kosningarinnar, var lék með Bronze í magnaðri vörn Lyon. Þá var markvörður liðsins, Sarah Bouhaddi, kosin markvörður ársins.

Bouhaddi stóð í markinu Bronze í hægri bakverði, Renard í miðverði og Sara Björk á miðjunni er Lyon fullkomnaði þrennu sína með 3-1 sigri á Wolfsburg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 30. ágúst síðastliðinn.

„Hápunkturinn var augljóslega Meistaradeildin, þetta var eins og HM. Að spila gegn erkifjendunm í PSG og svo Wolfsburg var rosalegt. Það var svekkjandi að engir áhorfendur hafi verið en að lyfta bikarnum var ótrúleg tilfinning.“

„Ástæðan fyrir að ég kom til baka í Manchester City er sú að ég vill vinna titla á Englandi og taka þá tilfinningu með mér inn í landsliðið. Hlakkar í raun mest til að fara á Ólympíuleikana með Bretlandi, svo að spila á heimavelli á EM og svo að fara á HM,“ sagði Lucy Bronze, besti leikmaður ársins 2020 að mati landsliðsþjálfara, fyrirliða og blaðamanna, að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×