Íslenski boltinn

Valur og Breiðablik mætast í risaleik í kvöld | Sjáðu upphitunina í heild sinni

Ísak Hallmundarson skrifar

Stærstu leikir tímabilsins í Pepsi Max deild kvenna eru tvímælalaust leikir Breiðabliks og Vals. Valur er á toppnum með einu stigi meira en Breiðablik, en Blikar eiga leik til góða. Liðin mætast á Hlíðarenda í dag kl. 17:00 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

,,Við erum ekki þekkt fyrir að vinna mikið á Valsvellinum þannig þetta er svona prófraun fyrir okkur líka að því leyti til. Nú þurfum við bara að mæta þarna, spila góðan leik og vinna,‘‘ sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari Blika.

,,Ég held að við þurfum að spila svolítið agað á móti þeim, loka ákveðnum leiðum hjá þeim, loka á ákveðna leikmenn sem eru uppistaðan í sóknarleiknum hjá þeim. Það er svona grunnurinn, loka á ákveðna leikmenn í sóknarleiknum og vera skipulögð að því leyti til,‘‘ sagði Þorsteinn aðspurður út í hvað Breiðablik þurfi að gera til að ná í sigur.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom til Vals á miðju tímabili og er að fara að spila sinn fyrsta risaleik milli þessara liða.

,,Við ætlum bara að koma í þennan leik eins og alla aðra. Ég held að bæði liðin ætli inn í þennan leik til að ná í þrjú stig. Þetta verður góður leikur og ég mæli með að allir komi og horfi á hann eða horfi á hann í sjónvarpinu, þetta verður góð skemmtun. Ég held að bæði lið komi brjálaðar til leiks,‘‘ sagði Gunnhildur.

Jafntefli í kvöld myndi þýða að Breiðablik væri enn með fæst töpuðu stigin, sigur Blika myndi fara langleiðina með að tryggja þeim titilinn en Valssigur myndi fara langleiðina með að tryggja það að bikarinn endi á Hlíðarenda annað árið í röð. Þetta er því sannkallaður úrslitaleikur.

Alla upphitunina má sjá í spilaranum hér efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×