Enski boltinn

Uppgjafartónn í Mourinho en Lampard vorkennir honum ekki

Sindri Sverrisson skrifar
José Mourinho hefur í nógu að snúast eins og fleiri þessa dagana.
José Mourinho hefur í nógu að snúast eins og fleiri þessa dagana. vísir/getty

José Mourinho hljómar ekki eins og hann muni leggja allt í sölurnar gegn sínu gamla liði í kvöld þegar Tottenham og Chelsea mætast í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins í fótbolta.

Leikurinn er sá fyrsti í þessari umferð en henni lýkur á fimmtudagskvöld þegar Liverpool og Arsenal mætast.

Tottenham komst í gegnum þriðju umferð án þess að spila vegna kórónuveirusmita hjá liðinu sem Tottenham átti að mæta, Leyton Orient. Leikjadagskráin er engu að síður afar þétt hjá Tottenham sem mætir Maccabi Haifa í Evrópudeildinni á fimmtudag og svo Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Hærri fjárhæðir í húfi á fimmtudaginn

„Ég myndi vilja geta barist um dieldabikarinn en ég held að ég geti það ekki,“ sagði Mourinho eftir 1-1 jafntefli Tottenham við Newcastle um helgina. Umspilsleikurinn við Maccabi Haifa, um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, væri mikilvægari:

„Við eigum leik á fimmtudaginn sem gefur okkur ekki eins mikið af peningum og Meistaradeildin en þó fæst mikilvæg upphæð fyrir okkur með því að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar,“ sagði Mourinho.

Frank Lampard, stjóri Chelsea, vorkennir ekki sínum gamla læriföður:

„Ég veit alveg að þetta er strembinn tími fyrir Tottenham út af Evrópudeildinni. En dagskráin er þétt hjá okkur öllum. Þeir áttu frí í miðri viku í síðustu viku, ekki við. Ég veit að þeir hafa í mörgu að snúast í þessari viku en ég þegar ég skoða Tottenham og hópinn sem þeir hafa þá er hann stórkostlegur. Ég tel því að hvaða liði sem Jose teflir fram þá verði það mjög sterkt,“ sagði Lampard.


Tengdar fréttir

„Sá sérstaki“ stóð við lof­orðið

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, stendur við stóru orðin og það sannaðist í dag er blaðamaður fékk mynd af sér með portúgalska stjóranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×