Erlent

Trump á­varpar grímu­lausa fundar­gesti: „Við munum auð­veld­­lega sigrast á Kína-veirunni“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Trump fagna komu hans á fjöldafundinn.
Stuðningsmenn Trump fagna komu hans á fjöldafundinn. AP Photo/Andrew Harnik

Þvert á ríkisreglur og tilmæli hans eigin stjórnar hélt Donald Trump Bandaríkjaforseti í gær fjöldafund innanhúss, þar sem gestir fundarins stóðu þétt saman án þess að bera grímur fyrir vitum. Trump upplýsti fundargestina í Nevada að þjóðin væri við það að sigrast á faraldrinum.

Þetta er fyrsti fjöldafundurinn sem Trump heldur innanhúss síðan í júní þegar hann hélt fjöldafund í Tulsa í Oklahoma sem vakti gríðarlega mikla athygli og var harðlega gagnrýndur. Þar var varla farið eftir sóttvarnareglum og var samkomunni í kjölfarið kennt um fjölda kórónuveirusmita sem komu upp hjá fundargestum.

Donald Trump Bandaríkjaforeti talar við fundargestina sem sátu beint fyrir aftan hann og voru í mynd.AP Photo/Andrew Harnik

Á fundinum í Las Vegas, sem haldinn var í gærkvöldi, var varla neinn fundargesta með grímur – það er – engir nema þeir sem sátu fyrir aftan forsetann og áttu von á því að vera í mynd, sem rata myndi í sjónvarp, samkvæmt fréttaflutningi AP. Þeim var gert að bera grímur en engum þeirra sem sátu í salnum fyrir framan forsetann var það skylt.

„Við munum ekki loka landinu aftur. Lokun myndi eyðileggja líf og drauma milljóna Bandaríkjamanna,“ sagði Trump og bætti við: „Við munum auðveldlega sigrast á Kína-veirunni.“

Hann minntist ekkert á dánartíðni Covid-19 en nærri 200 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist þegar þessi frétt er skrifuð og um þúsund til viðbótar deyja dag hvern.

Í kjölfar fjöldafundarins í Tulsa ákvað kosningateymi Trump að breyta fyrirkomulaginu en Trump og kosningateymi hans voru harðlega gagnrýnd í kjölfar fundarins. Til þess var gripið að halda smærri fundi utandyra. Fundirnir hafa þó orðið fjölmennari á undanförnum vikum og hefur félagsforðun ekki verið viðhöfð og fáir borið grímur fyrir vitum.

Grímulausir fundargestir á fjöldafundinum í Las Vegas í gær.AP Photo/Andrew Harnik

Á sunnudag var ákveðið að halda aftur inn og segja starfsmenn Trump það vera vegna þess hve heitt hefur verið í Nevada undanfarna daga. Allir fundargestir voru hitamældir við komu og hvattir til að bera grímur en fáir gerðu það eins og áður segir.

Síðan í maí hefur verið fimmtíu manna samkomutakmark í Nevada, samkvæmt tilmælum frá Hvíta húsinu. Steve Sisolak, ríkisstjóri Nevada, sagði í yfirlýsingu rétt áður en fundurinn hófst að Trump „væri kærulaus og sjálfselskur í ákvörðunum sínum sem stefndu lífi óteljandi Nevadabúa í hættu.“


Tengdar fréttir

Gróðureldar orðnir að pólitísku bitbeini

Íbúar Kaliforníu, Oregon og Washington hafa orðið fyrir barðinu á sögulegu eldhafi en eldarnir hafa brunnið hraðar og meira en nokkru sinni áður. Eldarnir hafa þó orðið að pólitísku bitbeini milli Demókrata og Repúblikana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×