Íslenski boltinn

Breiðablik kaupir markvörð frá Njarðvík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Atli var á reynslu hjá Sheffield United fyrr í vetur.
Brynjar Atli var á reynslu hjá Sheffield United fyrr í vetur. Vísir/VF

Pepsi Max deildarlið Breiðabliks hefur fest kaup á Brynjari Atla Bragasyni, markverði Njarðvíkur. Er hann annar markvörðurinn sem gengur til liðs við Breiðablik síðan síðasta tímabili lauk en Anton Ari Einarsson gekk til liðs við félagið frá Val fyrr í vetur. Þá ákvað Gunnleifur Gunnleifsson að leggja hanskana á hilluna en hann mun sjá um markmannsþjálfun liðsins á næsta tímabili.

Frá þessu er greint á 433.is.

Brynjar Atli er með efnilegri markvörðum Íslands en hann er aðeins tvítugur að aldri, fæddur árið 2000. Hann var aðalmarkvörður Njarðvíkur síðasta sumar en liðið féll þá úr Inkasso deildinni niður í 2. deild eftir að hafa fengið 44 mörk á sig í 22 leikjum.

Ljóst er að Blikar eru ekki að sækja Brynjar Atla til að vera aðalmarkvörð en Anton Ari verður í rammanum næsta sumar. Talið er að Óskar Hrafn Þorvaldsson og þjálfarateymi Breiðabliks vilji lána leikmanninn aftur í 1. deildina og leyfa honum þannig að öðlast reynslu til að geta sett pressu á Anton Ara þegar fram líða stundir.

Brynjar Atli er fimmti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Breiðablik frá því að síðasta tímabili lauk. Anton Ari kom sem fyrr segir frá Val, Róbert Orri Þorkelsson kom frá Aftureldingu, Oliver Sigurjónsson kom heim úr atvinnumennsku en hann lék með Bödo/Glimt í Noregi og þá kom Höskuldur Gunnlaugsson einnig heim úr atvinnumennsku.

Þá komu þeir Óskar Hrafn og Halldór Árnason inn sem þjálfarar en þeir höfðu komið Gróttu upp um tvær deildir á tveimur árum en Grótta leikur í fyrsta skipti í sögunni í efstu deild í knattspyrnu næsta sumar.


Tengdar fréttir

Oliver aftur til Breiðabliks

Miðjumaðurinn Oliver Sigurjónsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Breiðablik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×