Viðskipti innlent

Erla tekur við af Óskari Hrafni hjá VÍS

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Erla Tryggvadóttir hefur þegar hafið störf hjá VÍS.
Erla Tryggvadóttir hefur þegar hafið störf hjá VÍS.

Erla Tryggvadóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS). Hún tekur við starfinu af Óskari Hrafni Þorvaldssyni sem gegndi því í um hálft ár eða þangað til hann var kynntur til sögunnar sem þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu í haust.

Erla mun miðla upplýsingum um félagið til fjölmiðla og markaðsaðila og bera ábyrgð á framfylgd samfélagsstefnu félagsins að því er segir í tilkynningu. Þar kemur fram að hún hafi víðtæka reynslu úr atvinnulífinu.

Hún var meðal annars starfandi framkvæmdastjóri hjá Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, viðskiptastjóri hjá Brandenburg auglýsingastofu, verkefnastjóri á samskipta- og markaðssviði hjá Straumi fjárfestingarbanka og starfaði lengi hjá RÚV, bæði í sjónvarpi og útvarpi. Nú síðast starfaði hún hjá Stekk, fjárfestingarfélagi.

Erla stundar nú MBA nám við Háskólann í Reykjavík (HR) og lýkur prófi næsta vor. Hún er jafnframt með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá HR og Viðskiptaháskólanum í 

Kaupmannahöfn (CBS). Erla er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. 

„Ég hlakka mikið til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá þessu öfluga félagi. VÍS er á öruggri siglingu til móts við nýja tíma,“ segir Erla í tilkynningunni.

Hún hefur nú þegar hafið störf.


Tengdar fréttir

Andri Ólafsson til VÍS

Kveður Fréttablaðið og tekur við starfi samskiptastjóra hjá tryggingafélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×