Erlent

Brutu lög með frystingu neyðaraðstoðar til Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Mikc Mulvaney.
Donald Trump og Mikc Mulvaney. AP/Susan Walsh

Sjálfstæð eftirlitsstofnun með framkvæmdavaldi Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hvíta húsið hafi brotið lög þegar neyðaraðstoð til Úkraínu, sem þingið hafði samþykkt, var fryst. Málið er stór liður í ákærunum gegn Donald Trump, forseta, fyrir embættisbrot. Meðal annars er hann sakaður um að hafa fryst aðstoðina með því markmiði að þvinga Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, til að tilkynna tvær rannsóknir sem myndu hagnast Trump pólitískt séð.

Government Accountability Office, eða GAO, er sjálfstæð stofnun sem skilar skýrslum sínum til þingsins. Í nýrri skýrslu segir að fjárlagaskrifstofa Hvíta hússins, OMB, hafi brotið lög með því að frysta aðstoðina. Nánar tiltekið lög frá 1974 sem eiga að veita framkvæmdavaldinu leið til að biðja þingið um að endurskoða fjárveitingar sem búið er að setja í lög.

„Framfylgd laganna leyfir forsetanum ekki að skipta út eigin stefnumálum í stað þeirra sem þingið hefur samþykkt í lög,“ skrifaði yfirlögfræðingur GAO í skýrsluna.

Forsvarsmenn fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins eru ósammála niðurstöðu GAO.

„OMB notar vald sitt til að tryggja að skattfé sé veitt í samræmi við forgangsatriði forsetans og lögin,“ sagði talskona OMB, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Fram hefur komið í rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum Trump að einhverjir starfsmenn OMB höfðu áhyggjur af þeirri skipun að frysta neyðaraðstoðina og töldu hana mögulega ólöglega. Minnst tveir sögðu störfum sínum lausum vegna skipunarinnar, sem kom frá Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Ákærður vegna málsins

Trump er gert að hafa beitt utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu með því markmiði að þvinga Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu til að tilkynna upphaf tveggja rannsókna sem myndu nýtast Trump í kosningunum á næsta ári. Sú viðleitni hafi staðið yfir um mánaða skeið og hafi verið stýrt af Rudy Giuliani, einkalögmanni Trump.

Demókratar segja Trump hafa ógnað bæði heillindum kosninga í Bandaríkjunum og þjóðaröryggi en rannsókn hefur nú staðið yfir frá því að í ljós kom að Trump hafði haldið aftur af neyðaraðstoð til Úkraínu.

Hvíta húsið sleppti takinu á neyðaraðstoðinni eftir að kvörtun uppljóstrara vegna símtals Trump og Zelensky var lögð fram.

Vitnisburður embættismanna á síðustu vikum hefur varpað ljósi á að Trump skipaði embættismönnum að vinna með Rudy Guiliani, einkalögmanni hans, varðandi málefni Úkraínu og þvinguðu þeir forsvarsmenn ríkisins til að lýsa því yfir opinberlega að Úkraínumenn ætluðu sér að rannsaka pólitískan andstæðing forsetann og aðra rannsókn sem grafa átti undan Rússarannsókninni svokölluðu og Landsnefnd Demókrataflokksins.

Lítið til í ásökunum Trump

Forsetinn og bandamenn hans hafa sakað Joe Biden um spillingu vegna þess að hann þrýsti á úkraínsk stjórnvöld að reka saksóknara á sama tíma og Hunter, sonur hans, sat í stjórn olíufyrirtækisins Burisma Holdings. Það eigi Biden að hafa gert til að stöðva rannsókn sem beindist að Burisma, samkvæmt kenningu Trump-liða og vill forsetinn að Úkraínumenn rannsaki það.

Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að Biden-feðgarnir hafi gert nokkuð ólöglega eða að rannsókn hafi yfir höfuð staðið yfir á Burisma á þeim tíma sem þáverandi varaforsetinn reyndi að koma saksóknara frá. Sú viðleitni var hluti af alþjóðlegum þrýstingi þar sem vestræn ríki töldu saksóknarann ljón í vegi þess að uppræta langvarandi spillingu í Úkraínu.

Sjá einnig: Repúblikanar vildu einnig láta reka saksóknarann úkraínska

Hin rannsóknin tengist samsæriskenningu um tölvupóstþjón landsnefndar Demókrataflokksins sem rússneskir hakkarar brutust inn í fyrir forsetakosningarnar 2016 og láku vandræðalegum póstum í gegnum Wikileaks. Trump hefur lengi verið gramur vegna niðurstöðu bandarísku leyniþjónustunnar að rússnesk stjórnvöld hafi háð upplýsingastríð og framið tölvuinnbrot til að hjálpa honum til sigurs.

Trump og bandamenn hans hafa því haldið þeirri hugmynd á lofti um að það hafi í reynd verið úkraínskir útsendarar sem frömdu innbrotið í tölvupóstþjón demókrata og að þeir hafi bókstaflega falið áþreifanlegan tölvupóstþjón í Úkraínu. Markmiðið hafi verið að koma sök á Rússa. Það er, eins og áður hefur komið fram, þvert á öll sönnunargögn og niðurstöður öryggisstofnanna í bandaríkjunum og sérfræðinga.

Þessu hafa Trump-liðar og þar með taldir nokkrir þingmenn, haldið áfram að dreifa. Þrátt fyrir að embættismenn og forsvarsmenn öryggisstofnanna hafi varað þá við því að ásakanirnar gegn Úkraínu séu runnar undan rifjum þeirra sömu Rússa og gerðu árásina á tölvukerfi Landsnefndar Demókrataflokksins.

Gróf tímalína

Í stuttu máli sagt, eða eins stuttu máli og mögulegt er, þá hófst rannsókn fulltrúadeildarinnar eftir að í ljós kom að uppljóstrari hafði lagt fram formlega kvörtun vegna símtals Trump og Zelensky þann 25. júlí. Kvörtunin var lögð fram þann 12. ágúst af starfsmanni leyniþjónustu Bandaríkjanna til innri endurskoðenda leyniþjónusta Bandaríkjanna. Innri endurskoðandinn, Michael Atkinson sem skipaður var í embætti af Trump, tók málið til skoðunar og ákvað að kvörtunin væri trúverðug og að málið væri „aðkallandi áhyggjuefni“.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kom þó í veg fyrir að kvörtunin yrði afhent þinginu, eins og lög segja til um. Í kjölfarið kom einnig í ljós að Trump hafði fryst neyðaraðstoðina til Úkraínu og rannsóknin hófst þann 9. september. Þingmenn fengu ekki aðgang að upprunalegu kvörtuninni fyrr en þann 25. september.

Í millitíðinni birti Trump gróft eftirrit af símtali hans og Zelensky þar sem kom skýrt fram að þegar Zelensky talaði um að kaupa vopn af Bandaríkjunum, stöðvaði Trump hann og sagði: „Þú verður samt að gera okkur greiða“.

Eftir það fór hann að tala um meinta spillingu Biden og samsæriskenninguna um vefþjóninn. Þá hafa vitni sagt að Trump og Giuliani hafi krafist þess af Úkraínumönnum að Zelensky myndi tilkynna rannsóknirnar tvær opinberlega. Fyrr fengi hann ekki fund með Trump, eins og hann vildi, og hefur Trump sömuleiðis verið sakaður um að halda aftur af neyðaraðstoðinni til að þrýsta á Zelensky.

Eftir birtingu eftirritsins hóf fulltrúadeildin rannsóknina.

Þá var aðstoðin afhent þann 11. september. Tveimur dögum eftir að rannsóknin hófst. Strax í kjölfar þess tilkynntu aðstoðarmenn Zelensky forsvarsmönnum CNN að hann myndi ekki mæta í sjónvarpsviðtal á næstu dögum, eins og til stóð. Forsetinn er sagður hafa ætlað að verða við beiðni Trump í því viðtali og lýsa yfir því að áðurnefndar rannsóknir væru hafnar.

Sjá einnig: Sluppu með naumindum við að verða við kröfum Trump

Skömmu eftir að rannsóknin hófst sagði Mulvaney á blaðamannafundi að Trump hafi haldið aftur af neyðaraðstoðinni til að þrýsta á yfirvöld Úkraínu. Blaðamenn ættu bara að jafna sig á því. Hann reyndi þó að draga orð sín til baka skömmu eftir það.

Sjá einnig: „Forsetanum er drullusama um Úkraínu“

Síðan þá hafa bandamenn forsetans haldið því fram að Trump hafi haldið aftur af neyðaraðstoðinni vegna áhyggja hans af spillingu í Úkraínu. Rannsóknunum sem hann vildi að Zelensky tilkynnti hafi einnig verið ætlað að koma niður á spillingu.


Tengdar fréttir

Búið að tilkynna hverjir flytja málið gegn Trump

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti í dag hvaða þingmenn munu flytja mál þingsins gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í öldungadeildinni, þar sem nokkurs konar réttarhöld munu fara fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.