Erlent

Búið að tilkynna hverjir flytja málið gegn Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Nancy Pelosi auk þingmannanna sjö sem flytja munu málið.
Nancy Pelosi auk þingmannanna sjö sem flytja munu málið. AP/Susan Walsh

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti í dag hvaða þingmenn munu flytja mál þingsins gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í öldungadeildinni, þar sem nokkurs konar réttarhöld munu fara fram. Um er að ræða þingmennina Adam Schiff, Jerry Nadler, Zoe Lofgren, Hakeem Jeffries, Jason Crow, Val Demings og Sylvia Garcia.

Fulltrúadeildin mun greiða atkvæði seinna í dag um að senda embættisákærurnar gegn Trump til öldungadeildarinnar og er talið að réttarhöldin gætu hafist strax í næstu viku.

Sjá einnig: Ætla ekki að fella ákærurnar niður án réttarhalda

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hefur neitað að halda þessa atkvæðagreiðslu í nokkrar vikur með því markmiði að fá Mitch McConnell, forseta öldungadeildarinnar, til að tilkynna að Repúblikanar muni leyfa vitni í réttarhöldunum. McConnell hefur hins vegar ekki viljað skuldbinda sig til þess.

Hvíta húsið kom í veg fyrir að flestir starfsmenn ríkisstjórnarinnar báru vitni í rannsókn fulltrúadeildarinnar og þar á meðal voru þeir helstu sem komu að Úkraínumálinu svokallaða. Má til dæmis nefna þá Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump.

Trump er gert að hafa beitt utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu með því markmiði að þvinga Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu til að tilkynna upphaf tveggja rannsókna sem myndu nýtast Trump í kosningunum á næsta ári. Sú viðleitni hafi staðið yfir um mánaða skeið og hafi verið stýrt af Rudy Giuliani, einkalögmanni Trump.

Ein rannsóknin átti að beinast gegn Joe Biden og syni hans og hin átti að snúa að meintum afskiptum yfirvalda Úkraínu af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Það er lítið að marka báðar ásakanirnar. Vitni hafa líka sagt að Trump hafi ekki endilega viljað að rannsóknirnar færu fram. Honum var hins vegar mjög annt um að Zelensky myndi tilkynna tilvist rannsóknanna opinberlega.

Mitch McConnell, forseti öldungadeildarinnar, hefur ekki viljað staðfesta hvort vitni verða kölluð til eða ekki.


Tengdar fréttir

Allt útlit fyrir að réttarhöldin yfir Trump hefjist eftir viku

Allt útlit er fyrir að formleg réttarhöld yfir Donald Trump, forseta Bandaríkjana, þar sem ákærur á hendur honum til embættismiss verða teknar fyrir í öldungadeildinni, hefjist eftir viku. Búist er við að fulltrúadeildin sendi ákærurnar formlega til meðferðar öldungadeilarinnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×