Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr stórsigri Blika og þegar meistararnir unnu botnliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar skoruðu fjögur mörk í Árbænum.
Blikar skoruðu fjögur mörk í Árbænum. vísir/bára

Sigurganga Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna hélt áfram þegar liðið vann 0-4 sigur á Fylki í gær. Eftir tvo leiki án sigurs lögðu Íslandsmeistarar Vals botnlið FH að velli, 3-1.

Blikar sýndu allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleiknum gegn Fylkiskonum í gær og voru 0-4 yfir að honum loknum.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði tvö keimlík mörk með fjögurra mínútna millibili í upphafi leiks. Þetta voru fyrstu mörk hennar í sumar. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði ellefta deildarmark sitt á 29. mínútu og átta mínútum síðar gerði Katla María Þórðardóttir, varnarmaður Fylkis, sjálfsmark.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri enda úrslitin svo gott sem ráðin. Þetta var fyrsta tap Fylkis í Pepsi Max-deildinni í sumar. Liðið er með tólf stig í 3. sæti.

Blikar, sem hafa unnið alla sjö leiki sína án þess að fá á sig mark, eru á toppi deildarinnar með tveggja stiga forskot á Valskonur og eiga auk þess leik til góða.

Það tók Val 38 mínútur að brjóta FH á bak aftur. Elín Metta Jensen skoraði þá sitt níunda mark í sumar. Þremur mínútum síðar bætti Hlín Eiríksdóttir öðru marki við.

Bergdís Fanney Eiríksdóttir skoraði þriðja mark Vals á 62. mínútu eftir skelfileg mistök Telmu Ívarsdóttur í marki FH.

Madison Gonzalez minnkaði muninn í 3-1 á 78. mínútu en nær komst FH ekki. Hafnfirðingar hafa tapað sjö af átta leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni og eru fjórum stigum frá öruggu sæti.

Mörkin átta og viðtöl úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild kvenna má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin úr Pepsi Max-deild kvenna

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.