Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr stórsigri Blika og þegar meistararnir unnu botnliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar skoruðu fjögur mörk í Árbænum.
Blikar skoruðu fjögur mörk í Árbænum. vísir/bára

Sigurganga Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna hélt áfram þegar liðið vann 0-4 sigur á Fylki í gær. Eftir tvo leiki án sigurs lögðu Íslandsmeistarar Vals botnlið FH að velli, 3-1.

Blikar sýndu allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleiknum gegn Fylkiskonum í gær og voru 0-4 yfir að honum loknum.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði tvö keimlík mörk með fjögurra mínútna millibili í upphafi leiks. Þetta voru fyrstu mörk hennar í sumar. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði ellefta deildarmark sitt á 29. mínútu og átta mínútum síðar gerði Katla María Þórðardóttir, varnarmaður Fylkis, sjálfsmark.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri enda úrslitin svo gott sem ráðin. Þetta var fyrsta tap Fylkis í Pepsi Max-deildinni í sumar. Liðið er með tólf stig í 3. sæti.

Blikar, sem hafa unnið alla sjö leiki sína án þess að fá á sig mark, eru á toppi deildarinnar með tveggja stiga forskot á Valskonur og eiga auk þess leik til góða.

Það tók Val 38 mínútur að brjóta FH á bak aftur. Elín Metta Jensen skoraði þá sitt níunda mark í sumar. Þremur mínútum síðar bætti Hlín Eiríksdóttir öðru marki við.

Bergdís Fanney Eiríksdóttir skoraði þriðja mark Vals á 62. mínútu eftir skelfileg mistök Telmu Ívarsdóttur í marki FH.

Madison Gonzalez minnkaði muninn í 3-1 á 78. mínútu en nær komst FH ekki. Hafnfirðingar hafa tapað sjö af átta leikjum sínum í Pepsi Max-deildinni og eru fjórum stigum frá öruggu sæti.

Mörkin átta og viðtöl úr leikjum gærdagsins í Pepsi Max-deild kvenna má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin úr Pepsi Max-deild kvenna

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×