Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Breiðablik 0-4 | Óstöðvandi Blikar sýndu styrk sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sín fyrstu mörk í sumar gegn Fylki í kvöld.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sín fyrstu mörk í sumar gegn Fylki í kvöld. vísir/bára

Breiðablik vann sinn sjöunda sigur í jafn mörgum leikjum í Pepsi Max-deild kvenna þegar liðið lagði Fylki að velli, 0-4, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði tvö mörk, Berglind Björg Þorvaldsdóttir eitt auk þess sem Katla María Þórðardóttir gerði sjálfsmark.

Blikar eru áfram með tveggja stiga forskot á Íslandsmeistara Valskvenna á toppi deildarinnar og eiga auk þess leik til góða. Þetta var fyrsta tap Fylkiskvenna í deildinni í sumar. Þær eru í 3. sæti með tólf stig.

Blikar sýndu allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik. Sóknirnar buldu á Fylkisvörninni og ógnin kom úr öllum áttum.

Karólína kom gestunum yfir á 10. mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir átti þá einn af sínum fjölmörgu sprettum, sendi fyrir, boltinn fór af varnarmanni og á Karolínu sem skoraði með góðu skoti.

Fjórum mínútum síðar skoraði Karólína annað mark sitt og það var keimlíkt því fyrsta. Boltinn féll þá fyrir hana eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur og hún kláraði færið með vinstri fæti að þessu sinni.

Blikar gáfu ekkert eftir og á 29. mínútu fékk Berglind boltann frá Öglu Maríu Albertsdóttur með bakið í markið, sneri frábærlega með boltann og skilaði honum svo í netið. Þetta var ellefta deildarmark Berglindar í sumar.

Á 37. mínútu kom svo fjórða markið. Hornspyrna Áslaugar Mundu fór þá af Kötlu Maríu og í netið. Staðan 0-4 í hálfleik, Breiðabliki í vil.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri enda úrslitin svo gott sem ráðin. Breiðablik var þó alltaf líklegri til að bæta við mörkum en Fylkir að minnka muninn.

Árbæingar sýndu þó smá lit og björguðu andlitinu. Eftir fyrri hálfleikinn stefndi í risasigur en Blikar létu fjögur mörk nægja.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar eru með besta lið landsins og sýndu mátt sinn og megin í kvöld. Það er ekki tilviljun að Breiðablik hefur unnið alla sjö deildarleiki sína með markatölunni 28-0. Þær grænu voru góðar í fyrra en eru enn betri í ár.

Hverjar stóðu upp úr?

Karólína hefur spilað vel í sumar en mörkin hefur vantað. Þau komu í kvöld og það eru vondar fréttir fyrir hin liðin í deildinni ef Karólína fer að skora reglulega.

Karólína, Alexandra Jóhannsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir voru með öll völd á miðjunni í leiknum. Sú síðastnefnda lék einkar vel eins og hún hefur gert síðan hún kom inn í byrjunarlið Breiðabliks.

Sveindís skoraði ekki en gerði varnarmönnum Fylkis lífið leitt allan leikinn og þær Agla María og Berglind voru góðar að venju.

Hvað gekk illa?

Fylkiskonur mættu einfaldlega ofjörlum sínum í kvöld og voru undir á öllum sviðum leiksins. Fylkir hefur ekki spilað vel í síðustu leikjum, liðið slapp gegn Stjörnunni og Þór/KA en átti aldrei möguleika gegn Breiðabliki. 

Hvað gerist næst?

Liðin fá nú rúmlega viku frí en næstu leikir þeirra eru ekki fyrr en fimmtudaginn 6. ágúst. Breiðablik fær þá Stjörnuna í heimsókn á meðan Fylkir sækir botnlið FH heim.

Þorsteinn: Megum ekki gleyma okkur í gleðinni

Þorsteinn var hæstánægður með frammistöðu Blika í Árbænum.vísir/bára

„Já, ég gæti alveg trúað því. Við héldum boltanum vel og opnuðum þær og spiluðum heilt yfir frábæran fyrri hálfleik,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, aðspurður hvort frammistaðan í fyrri hálfleik gegn Fylki hafi verið sú besta hjá Kópavogsliðinu í sumar. Blikar voru 0-4 yfir í hálfleik sem urðu síðan lokatölur leiksins.

„Það kom okkur kannski á óvart hvað þær voru kaldar að pressa okkur. Það skapaði pláss fyrir okkur inni á miðjunni og við náðum að opna þær í kringum það.“

Blikar slökuðu aðeins á klónni í seinni hálfleik. Þorsteinn segir að það hafi ekki verið með ráðum gert.

„Þetta gerist ósjálfrátt að mestu leyti. Við ætluðum okkur að setja fleiri mörk en aðalatriðið var að klára leikinn með sæmd og mér fannst við gera það. Þær ógnuðu okkur ekkert og við héldum þeim frá markinu,“ sagði Þorsteinn.

Breiðablik hefur unnið alla sjö leiki sína í Pepsi Max-deildinni með markatölunni 28-0. Þrátt fyrir það segir Þorsteinn að Blikar séu með báða fætur á jörðinni.

„Það eru bara búnir sjö leikir af átján og maður fer ekkert fram úr sér. En auðvitað förum við í alla leiki til að vinna. Það er bara gamla klisjan, það er næsti leikur og hann telur alveg jafn mikið og þessi leikur í dag,“ sagði Þorsteinn.

„Við erum ánægð með leikinn í dag og ég er mjög stoltur af því að vinna Fylki þetta stórt og spila þennan góða leik. Við þurfum bara að koma okkur niður á jörðina, njóta næstu daga og byrja svo að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Um það snýst þetta þegar vel gengur; að gleyma sér ekki í gleðinni og halda einbeitingu.“

Kjartan: Höfum misst taktinn

Kjartan hrósaði Blikum eftir leikinn.vísir/bára

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, sagði að Árbæingar hefðu mætt ofjörlum sínum þegar Breiðablik kom í heimsókn í kvöld.

„Blikar voru yfir í öllu og mikið betri en við í dag,“ sagði Kjartan. Hann hefði viljað sjá sitt lið gera betur í leiknum, jafnvel þótt við ofurefli hefði verið að etja.

„Blikar voru frábærir í þessum leik. Við vorum kannski frá okkar besta. Það sem ég er ósáttastur með er hvað við fáum á okkur mörg mörk úr föstum leikatriðum. Við stóðum of langt frá og gáfum þeim of mikið svæði. Það eru kannski leiðindin í þessu. Svo sköpuðum við okkur ekki mikið.“

Staðan var 0-4 í hálfleik og úrslitin ráðin. Fylkiskonur náðu þó að bjarga andlitinu í seinni hálfleik og héldu hreinu í honum.

„Við ætluðum a.m.k. að koma út á völlinn og vera þéttari og reyna að sækja að sama skapi. En klárlega þurftum við að svara og ekki tapa seinni hálfleiknum. Við ætluðum að gefa þeim leik hérna í kvöld en þær voru bara þetta góðar og tóku okkur,“ sagði Kjartan.

Fylkiskonur hafa ekki spilað vel í síðustu leikjum þótt fyrsta tapið hafi ekki komið fyrr en í kvöld.

„Ég hef ekki áhyggjur af þessu en við höfum misst taktinn. Kannski fórum við ekki vel út úr sóttkvínni og þurfum að svara því,“ sagði Kjartan en líkt og Breiðablik og KR þurfti Fylkir að fara í tveggja vikna sóttkví. Hún virðist hafa farið verst í Fylki af þessum þremur liðum.

Kjartan segir kærkomið að fá smá tíma til að anda núna en næsti leikur Fylkis er ekki fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku.

„Við komumst loksins í frí. Þetta er bara endalaus endurheimt og undirbúningur fyrir leiki. Maður getur varla tekið alvöru æfingu,“ sagði Kjartan að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira