Íslenski boltinn

Eiður mun áfram starfa fyrir KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson tóku við U21-landsliðinu í ársbyrjun 2019.
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson tóku við U21-landsliðinu í ársbyrjun 2019. VÍSIR/VILHELM

Eiður Smári Guðjohnsen, nýráðinn þjálfari karlaliðs FH í fótbolta, verður áfram aðstoðarþjálfari U21-landsliðs karla líkt og undanfarin misseri.

Þetta staðfestir Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ og aðalþjálfari U21-landsliðsins, í samtali við Vísi. Aðspurður hvort það skapi ekki hagsmunaárekstra að Eiður þjálfi nú leikmenn hjá félagsliði sem til greina koma í U21-landsliðið svarar Arnar:

„Ef að menn vilja búa þá til þá er örugglega hægt að gera það. En þeir sem vinna faglegt starf munu aldrei láta eitthvað svona koma í veg fyrir að vinna gott starf. Það er ljóst að U21-liðið verður valið eftir því hvaða leikmenn ég tel að séu bestu leikmennirnir fyrir það lið, og enginn annar, sama í hvaða liði þeir eru.“

Eiður og Logi Ólafsson voru í dag tilkynntir sem nýir þjálfarar FH og munu stýra liðinu að minnsta kosti út tímabilið, sem áætlað er að ljúki 31. október.

Eiður hefur verið aðstoðarmaður Arnars hjá U21-landsliðinu frá því í janúar 2019 og er það hans fyrsta þjálfarastarf á ferlinum. Þeir gerðu samning til tveggja ára.

Næsti leikur U21-landsliðsins er í byrjun september þegar liðið tekur á móti Svíþjóð í undankeppni EM. 


Tengdar fréttir

Eiður: Sá þetta ekki gerast í náinni framtíð

„Ég hafði nú ekki endilega séð þetta gerast í náinni framtíð, að ég myndi fara að þjálfa á Íslandi,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen, nýráðinn þjálfari karlaliðs FH í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×