Erlent

Segir Duda nýta sér hatur á hinsegin fólki

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er formaður Samtakanna '78.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er formaður Samtakanna '78.

„Í fyrsta lagi er þetta bara ótrúlega grátlegt. Það er svo mjótt á mununum þarna. Það sem þetta þýðir er áframhaldandi barátta og erfiðleikar fyrir hinsegin fólk í Póllandi. Duda hefur hótað að leggja blátt bann við ættleiðingum samkynja para. Við gætum líka verið að sjá fram á að lagaleg réttindi þeirra verði skert og ekki voru þau mikil fyrir.“

Þetta sagði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ‚78 í hádegisfréttum Bylgjunnar um forsetakosningarnar sem fóru fram í Póllandi í gær. 

Andrzej Duda, sitjandi forseti, bar sigurorð af Rafal Trzakowski, borgarstjóra Varsjár, en sigurinn var afar naumur. Duda hlaut rúmlega 51% atkvæða en Trzakowski hátt í 49%. Afstaða Pólverja á Íslandi var aftur á móti mun afdráttarlausari en hátt í 80% Pólverja á Íslandi vildu Rafal Trzakowski í forsetastólinn.

Hvað lest þú í þá kosningabaráttu sem Duda hefur háð?

„Það sem hann er að gera er auðvitað það sem gekk vel hjá flokknum hans, Lögum og réttlæti, í síðustu þingkosningum og það er að auka ótta gegn hinsegin fólki og nota hinsegin fólk sem einhvers konar grýlu til þess að fá fólk til að kjósa sig. Þau hafa gert þetta áður, gerðu þetta í kosningunum þar á undan, þá var flóttafólk grýlan. Þau nýta minnihlutahópa og hatur gegn þeim og ótta til þess að ná völdum.“

Erfiðara að ræða stjórnmál við fjölskylduna nú en áður

Tomasz Chrapek, tölvunarfræðingur og fyrrverandi formaður fjölmenningarráðs, segir að pólska þjóðin sé klofin að loknum forsetakosningum.

Í Bítinu í morgun fjallaði Thomasz um kosningarnar sem fóru fram í gær en Tomasz segir að kosningarnar hafi að miklu leyti snúist um Duda, að vera með honum eða á móti. Samfélagið í Póllandi einkennist nú af sundrungu og togstreitu.

„Nú er samfélagið skipt í tvennt. Stór hópur fólks hefur fengið nóg af ríkisstjórninni og því sem hún hefur gert á undanförnum árum eins og hatur á hinseginfólki og þjóðernishyggju.“

Hann segir kosningarnar hafa skipað Pólverjum í tvær andstæðar fylkingar og að nú sé afar erfitt að ræða um stjórnmál, meira að segja innan fjölskyldunnar.

„Það er erfiðara núna að tala um pólitík. Fjölskyldan mín er fyrir Duda og það hefur reynst mér erfitt að tala við fjölskylduna mína um pólitík. Það er næstum því ekki hægt. Það er næstum því eins og að allir þurfi að segja hvort þeir styðji Duda eða ekki. Það þarf að skilgreina sig.“


Tengdar fréttir

Naumur sigur Duda virðist vera í höfn

Útlit er fyrir að Andrzej Duda, sitjandi forseti Póllands, hafi borið sigurorð af Rafal Trzaskowski í forsetakosningunum þar í landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.