Erlent

Trzaskowski mun vinsælli meðal Pólverja á Íslandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, var mun atkvæðameiri meðal Pólverja á Íslandi heldur en mótframbjóðandi sinn. Það virðist þó ekki hafa dugað til sigurs.
Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, var mun atkvæðameiri meðal Pólverja á Íslandi heldur en mótframbjóðandi sinn. Það virðist þó ekki hafa dugað til sigurs. Omar Marques/Getty

Mikill meirihluti Pólverja á Íslandi vildi fá Rafal Trzaskowski, borgarstjóra Varsjár, í forsetastól Póllands. Pólverjar greiddu í gær atkvæði í seinni umferð pólsku forsetakosninganna, þar sem Trzaskowski virðist hafa lotið í lægra haldi fyrir sitjandi forseta, Andrezej Duda.

RÚV greinir frá því að stór meirihluti Pólverja hér á landi hafi greitt Trzaskowski atkvæði sitt. Alss voru 3.174 atkvæði greidd í seinni umferð forsetakosninganna. Af þeim hlaut Trzaskowski 79,8 prósent, eða 2.533 atkvæði. Duda hlaut þannig 20,2 prósent gildra atkvæða, eða 641.

Kjörsókn meðal Pólverja hér á landi var meiri en úti í Póllandi. Á kjörskrá voru 4.520, en kjörsókn hér var 71 prósent. Hins vegar var kjörsókn í Póllandi 68 prósent. Hægt er að nálgast nánari sundurliðum á atkvæðum Pólverja á Íslandi á kosningavef pólskra stjórnvalda.

Eins og áður segir er útlit fyrir að Trzaskowski hafi tapað naumlega fyrir Duda, sem hlaut að lokum 51 prósent atkvæða á landsvísu. Enn á eftir að telja lítinn hluta þeirra, en þau eru ekki talin geta haft áhrif á niðurstöðurnar.

Frambjóðendurnir buðu upp á mismunandi framtíðarsýn til næstu fimm ára. Trzaskowski er öllu frjálslyndari, til að mynda í afstöðu sinni til málefna kvenna og hinseginfólks. Duda er fyrrverandi þingmaður stjórnarflokksins Laga og réttlætis og frekar íhaldssamur í áðurnefndum málaflokkum.

Í kosningabaráttunni beindi Duda sjónum sínum að réttindabaráttu hinsegin fólks og lofaði meðal annars að lögleiða bann við samkynja hjónaböndum, ættleiðingum hinsegin fólks og bann gegn hinsegin fræðslu í skólum. Sagði hann réttindabaráttuna grafa undan virðingu og umburðarlyndi og að hún væri skaðleg mannkyninu.

Duda ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að síðari útgönguspár voru birtar í gærkvöldi og þakkaði öllum sem kusu hann. Trzaskowski lagði áherslu á það við stuðningsmenn sína í kvöld að niðurstöður úr pólskum forsetakosningum hafi líklega aldrei verið svo jafnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.