Íslenski boltinn

Hverjir verða í vörn Víkings gegn Val?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það verður spennandi að sjá hvaða leikmenn verða í varnarlínu Víkings er Valur kemur í heimsókn í kvöld.
Það verður spennandi að sjá hvaða leikmenn verða í varnarlínu Víkings er Valur kemur í heimsókn í kvöld. Vísir/Bára

Það býður Víkinga ærið verkefni er Valur heimsækir Víkina í kvöld í 5. umferð Pepsi Max deildarinnar í fótbolta. 

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, þarf að búa til varnarlínu án sinna sterkustu varnarmanna. Þeir Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson sáu allir rautt gegn KR á dögunum og eru því í leikbanni í kvöld.

Leikurinn gegn KR tapaðist 2-0 sem þýðir að Víkingar hafa aðeins unnið einn af þeim fjórum leikjum sem þeir hafa leikið í deildinni í sumar. Liðið er í 8. sæti með fimm stig á meðan Valur er í 5. sæti með stigi meira. 

Víkingar verða án Sölva næstu tvo leiki til viðbótar eftir leik kvöldsins. Leikmaðurinn var dæmdur í þriggja leikja bann fyrir ummæli sem hann lét falla eftir að hafa verið rekinn út af um helgina.

Þessir þrír verða ekki með Víkingum í kvöld.Vísir/Vilhelm

Þá er Ingvar Jónsson, markvörður, mögulega enn frá vegna meiðsla og munar um minna.

Rétt áður en félagaskiptaglugginn hér á landi lokaðist þá ákvað Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, að lána vinstri bakvörðinn Loga Tómasson í FH. Þar með fækkar möguleikum Víkinga varnarlega en þeir sáu eflaust ekki fyrir að vera án Kára, Sölva Geirs og Halldórs Smára í einum og sama leiknum.

Það er svo gott sem hægt að útiloka að Arnar hendi miðvörðum 2. flokks Víkinga í djúpu laugina þar sem að Patrick Pedersen – framherji Vals – er ekkert lamb að leika sér við. Þá spilar eflaust inn í að 2. flokkur Víkinga situr á botni A-deildar og hefur fengið á sig 22 mörk í aðeins sex leikjum.

Tómas Guðmundsson er eini leikfæri miðvörður Víkings í kvöld. Tómas hætti í fótbolta árið 2016 en tók skóna að nýju fram í vetur og hefur leikið einn leik í sumar. Var það í 1-1 jafntefli Víkings gegn nöfnum sínum frá Ólafsvík í Mjólkurbikarnum. Tómas fær nú það verkefni að reyna stöðva áðurnefndan Pedersen.

Þá kemur Dofri Snorrason til greina, sérstaklega ef Víkingar ætla að spila með þrjá miðverði. Arnar Gunnlaugsson hefur áður líkt Dofra við Philip Lahm en sá magnaði leikmaður lék einstaka sinnum í miðverði eða á miðjunni hjá Bayern Munich undir stjórn Pep Guardiola.

Dofri er fjölhæfur leikmaður sem hefur spilað í bakverði, á kantinum sem og á miðjunni í gegnum feril sinn. Það kæmi því raunar lítið á óvart ef honum yrði stillt upp í miðverði, öðru hvoru megin við Tómas.

Verður Dofri Snorrason í miðverðinum í dag?Vísir/Bára

Vinstri bakvörðurinn Atli Barkarson kom inn af varamannabekknum í 4-1 sigri Víkings á FH. Gæti farið svo að hann taki stöðu vinstri bakvarðar eða vængbakvarðar í dag, eftir því hvað leikkerfi Víkingar munu spila.

Bjarni Páll Linnet Runólfsson og Halldór Jón Sigurður Þórðarson eru leikmenn sem hafa leyst stöður í vörninni áður en það er spurning hvort Arnar treysti þeim einfaldlega til að stöðva sóknarleik Vals í kvöld.

Davíð Örn Atlason gæti þá leikið stöðu miðvarðar – í þriggja manna varnarlínu – en blaðamaður telur ólíklegt að þjálfari Víkinga sé tilbúinn fórna Davíði Erni í þá stöðu. Hann er af mörgum talinn einn besti hægri bakvörður deildarinnar og myndu Víkingar sakna hans of mikið sóknarlega ef hann yrði settur í miðvörð.

Þá hefur komið upp sú umræða að færa Júlíus Magnússon, sem venjulega leikur á miðri miðjunni, niður í miðvörðinn. Arnar Gunnlaugsson hefur eflaust legið andvaka undanfarnar nætur yfir stöðunni.

Júlíus í leiknum gegn KR í Meistarakeppni KSÍ.Vísir/HAG

Nikolaj Andreas Hansen, sem venjulega leikur framarlega á miðjunni, gæti svo reynst ágætis kostur í miðvörðinn en hann er bæði stór og sterkur þó hægur sé.

Hvað Arnar ákveður kemur í ljós klukkan 17:00 en leikurinn hefst klukkutíma síðar, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Sölvi Geir fær þrjá leiki í bann

Sölvi Geir Ottesen leikmaður Víkings Reykjavík í Pepsi Max deild karla hefur hlotið þriggja leikja leikbann. Sölvi fékk rautt spjald í leik KR og Víkings um helgina og lét síðan óviðeigandi ummæli falla í garð fjórða dómara leiksins.

Rúnar: Við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld

Þrátt fyrir sigurinn á Víkingi var þjálfari KR langt frá því að vera sáttur með frammistöðu sinna manna. Hann sagði að rauðu spjöldin þrjú sem Víkingar fengu hafi verið rétt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.