Íslenski boltinn

Rúnar: Við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Með sigrinum á Víkingum jöfnuðu KR-ingarnir hans Rúnars Kristinssonar Blika að stigum á toppi Pepsi Max-deildar karla.
Með sigrinum á Víkingum jöfnuðu KR-ingarnir hans Rúnars Kristinssonar Blika að stigum á toppi Pepsi Max-deildar karla. vísir/bára

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna í sigrinum á Víkingi í miklum átakaleik á Meistaravöllum í kvöld. KR vann 2-0 en þrír leikmenn Víkings voru reknir af velli í leiknum.

„Ég er bara ánægður með stigin þrjú. Mér fannst við ekki eiga góðan dag. Við vorum slakir í fyrri hálfleik þótt við værum einum fleiri og meira að segja tveimur fleiri vorum við ekki mikið betri. Við þurfum að lyfta okkar leik upp á hærra plan,“ sagði Rúnar.

„En við erum með mjög agað lið og við sýndum það í dag. Og þess vegna unnum við leikinn.“

Þrátt fyrir að hafa ýjað að agaleysi Víkings vildi Rúnar ekki tjá sig mikið meira um það. 

„Þeir fengu þrjú rauð spjöld og öll réttilega að mínu mati. Ég held að það sé ekki nein spurning. Ég ætla ekki að fara ítarlega í hvert og eitt við fyrstu sýn voru þetta allt rauð spjöld,“ sagði þjálfarinn.

Kristján Flóki Finnbogason kom KR á bragðið og skoraði þar með í öðrum leiknum í röð. Rúnar vildi þó fá enn meira frá framherjanum.

„Ég er ánægður með hann hefur skorað í tveimur leikjum í röð en óánægður með að hann skildi ekki skora eitt til tvö mörk í viðbót. Við sýndum kæruleysi í færunum undir lokin,“ sagði Rúnar en eftir þriðja rauða spjald Víkinga fengu KR-ingar urmul góðra færa til að bæta við mörkum.

„Ég er ósáttur með að við unnum bara 2-0 því við vorum þremur fleiri. Við áttum að skora fleiri mörk og bæta markatöluna því hún getur skipt máli.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×