Kórónuveiran er farin að hafa mikil áhrif á Íslandsmótið í knattspyrnu en á síðustu dögum hafa þrír íslenskir knattspyrnumenn greinst með veiruna, tveir leikmenn í Pepsi-Max deild kvenna og einn leikmaður úr Pepsi-Max deild karla.
Eftir að greint var frá þriðja smitinu í kvöld hafa Almannavarnir sent félögum í efstu deild karla og kvenna boð um að koma í skimun fyrir veirunni.
Fótbolti.net segir frá þessu og birtir póstinn sem sendur var á forráðamenn félagann.
Póstur sem sendur var á félög efstu deildanna í kvöld
„Sóttvarnalæknir, Almannavarnir og Íslensk erfðagreining í samstarfi við Landspítalann ætla að skima fyrir kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdóminum.
Íslensk erfðagreining sér um framkvæmd sýnatöku og greiningu sýnanna.
Niðurstöður skimunar verða aðgengilegar á vefnum www.heilsuvera.is
Ákveðið hefur verið að bjóða leikmönnum og starfsfólki liða í Pepsi Max deildum karla og kvenna ásamt 2. flokki sömu liða í skimun. Einnig starfsfólki íþróttamannvirkja liðana.
Ástæðan fyrir því að þessi hópur er valinn er aldursdreifing og að dæmin sýna að þetta er aldur sem á samskipt við marga.
Niðurstöður á þessari skimun verða því mjög gagnlegar.
Ykkar liði er boðið að bóka tíma á þriðjudaginn og þurfa tímapantanir að vera gerðir af hverjum einstakling fyrir sig með rafrænum skilríkum á slóðinni: www.heilsuvera.is.“