Íslenski boltinn

Víðir telur líklegt að fleiri leikjum Íslandsmótsins verði frestað

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. Vísir/Baldur

Líklegt þykir að fleiri leikjum verði frestað í kjölfar smits sem kom upp í leikmannahópi Pepsi-Max deildarliðs Stjörnunnar í gær.

Víðir Reynisson var til viðtals í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 977 í hádeginu þar sem hann fór yfir ferlið í þeim málum sem komið hafa upp en staðfest er að einn leikmaður í Pepsi-Max deild kvenna og einn leikmaður í Pepsi-Max deild karla er með veiruna.

„Smitrakning er í gangi og margir sem bíða niðurstöðu í kjölfar smitsins sem kom upp í gær. Þetta getur haft talsvert mikil áhrif. Það má áætla að þetta hafi áhrif á næstu leiki Stjörnunnar. Ég held að það sé augljóst,“ sagði Víðir.

Leik KFG og Ægis í 3.deild karla sem fyrirhugaður var í dag var frestað þar sem verið er að sótthreinsa félagssvæði Stjörnunnar en KFG leikur heimaleiki sína á svæðinu. 

Stjarnan á að mæta KA í Pepsi-Max deild karla á morgun en það verður að teljast afar ólíklegt að sá leikur fari fram. Víðir segir að það muni skýrast betur að smitrakningu lokinni.

„Smitrakningin í kringum þennan aðila úr Stjörnunni er í fullum gangi. Það kemur í ljós á næstu klukkustundum hversu margir þurfa að fara í sóttkví. Dagurinn verður að leiða það í ljós. Það gæti þurft að fresta fleiri leikjum,“ segir Víðir.

Víðir var spurður að því hvort hægt væri að komast hjá tveggja vikna sóttkví með því að fara í skimun en það kemur ekki til greina og því ljóst að þau smit sem hafa þegar komið upp munu hafa víðtæk áhrif á íslensk knattspyrnulið í sumar.

„Allir sem eru útsettir þurfa að vera í sóttkví í fjórtán daga. Við munum taka sýni af öllum sem eru útsettir. Liðin (Karlalið Stjörnunnar og kvennalið Breiðabliks) verða boðuð í sýnatöku á næstunni, jafnvel um helgina,“ segir Víðir.

Helstu deildir heims eru í fullum gangi þessa dagana en samkvæmt Víði er ómögulegt að bera umhverfið í íslenska boltanum saman við þær aðgerðir sem notast er við á Englandi, Þýskalandi, Spáni og víðar.

„Leikmenn erlendis fara í skimun tvisvar til þrisvar í viku. Ég veit ekki hvort fjárhagur íslenskra liða myndi leyfa það,“ sagði Víðir.

Smelltu hér til að hlusta á útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu 977.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.