Erlent

Víggirt Hvíta húsið deilir við ráðhúsið um yfirráð yfir Washington-borg

Samúel Karl Ólason skrifar
Búið er að umkringja Hvíta húsið hárri svartri girðingu.
Búið er að umkringja Hvíta húsið hárri svartri girðingu. AP/Evan Vucci

Frá því á mánudagskvöld þegar mótmælendur voru hraktir frá Lafayettetorgi við Hvíta húsið, svo Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gæti haldið myndatöku, hafa varnir við Hvíta húsið aukist gífurlega. Svartar girðingar hafa verið reistar víða, leyniskyttur sitja á húsþökum og þungvopnaðir hermenn ganga um götur. Víggirt Hvíta húsið minnir helst orðið á hernaðarmannvirki.

Lífvarðasveit forsetans, Secret Service, segir að girðingin verði uppi fram yfir næsta miðvikudag. Í yfirlýsingu til CNN segir sveitin að girðingunni sé ætlað að tryggja nauðsynlegt öryggi Hvíta hússins. Þar segir einnig að hún hafi verið sett upp til að tryggja að hægt væri að halda áfram friðsöm mótmæli.

Búist er við að hún hafi verið sett upp vegna viðbúnaðar fyrir helgina þegar búist er við umfangsmiklum mótmælum í Washington DC. Síðasta föstudag og um síðustu helgi kom til átaka við mótmælendur sem kveiktu elda og rupluðu nærliggjandi fyrirtæki.

Trump var fluttur í neðanjarðarbyrgi Hvíta hússins vegna mótmælanna og var hann þar í rúma klukkustund samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs. Trump sjálfur segist þó ekki hafa verið færður í neðanjarðarbyrgið. Hann hafi farið þangað í örskotsstund til að skoða það.

Sér styrk í vígbúnaði

Donald Trump, sem hefur lengi farið fögrum orðum um harðstjóra og einræðisherra í heiminum er ánægður með að hafa hermenn vakta götur Washington DC og telur vígbúnaðinn til marks um styrk sinn.

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum innan Hvíta hússins að Trump segir vígbúnaðinn tákna að hann hafi náð stjórn á götum borgarinnar.

Muriel Bowser, borgarstjóri Washington DC.AP/Jacquelyn Martin

Deilur húsa á milli

Mureal E. Bowser, borgarstjóri Washington DC, segist hafa áhyggjur af því að Trump sjái einhverjar breytinganna fyrir sér sem varanlegar. Hún hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála í borginni og hafa starfsmenn ráðhússins deilt við starfsmenn Hússins um það hver fari í raun með stjórn borgarinnar.

Trump sakaði Bowser nýverið um það að hafa bannað lögreglu borgarinnar að aðstoða lífvarðasveit hans við varnir Hvíta hússins. Sú ásökun átti ekki við rök að styðjast.

Áhyggjurnar í ráðhúsinu náðu nýjum hæðum á miðvikudagskvöldið þegar fyrirspurn barst frá hernum um það hvaða götum borgarinnar væri best að loka til að koma hermönnum og búnaði þeirra inn í borgina til.

Nú fyrir skömmu opinberaði Bowser bréf sem hún hefur sent forsetanum þar sem hún segir neyðarástandi hafa verið aflétt. Mótmælin í gær hafi alfarið verið friðsöm og að enginn hafi verið handtekinn.

Þá fer hún fram á við Trump að hann fjarlægi alla hermenn og auka viðbúnað alríkisins úr borginni.

Í bréfinu til Trump lýsir Bowser einnig yfir áhyggjum af því að löggæslumenn sem tilheyri ótilgreindum alríkisstofnunum hafi verið við störf á götum Washington DC, án einkenna og vildu þeir ekki segja fólki hvaða stofnun þeir tilheyrðu.


Tengdar fréttir

Biskup for­dæmir kirkju­heim­sókn Banda­ríkja­for­seta

Biskup í Washington D.C. hefur fordæmt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir heimsókn sína í St. Johns biskupakirkjuna í grennd við Hvíta húsið í gær. Mótmælendur í grennd við kirkjuna voru beittir táragasi til þess að rýma svæðið fyrir myndatöku forsetans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.