Erlent

Biskup for­dæmir kirkju­heim­sókn Banda­ríkja­for­seta

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump heldur hér á biblíu fyrir utan St. Johns biskupakirkjuna í Washington D.C. í gær.
Trump heldur hér á biblíu fyrir utan St. Johns biskupakirkjuna í Washington D.C. í gær. SHAWN THEW/EPA

Biskup biskupakirkjunnar í Washington D.C. hefur fordæmt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir heimsókn sína í St. Johns biskupakirkjuna í grennd við Hvíta húsið í gær. Mótmælendur í grennd við kirkjuna voru beittir táragasi til þess að rýma svæðið fyrir myndatöku forsetans.

„Lof mér að vera algerlega skýr. Forsetinn var að nota Biblíuna, helgasta rit gyðing- og kristindóms, og eina af kirkjunum í biskupsdæmi mínu án leyfis, sem baksvið fyrir skilaboð sem ganga þvert gegn kenningum Jesú og öllu sem kirkjan okkar stendur fyrir,“ hefur CNN eftir Mariann Edgar Budde biskup.

„Og til þess að gera það gaf hann leyfi fyrir notkun lögreglumanna í óeirðabúnaði á táragasi til þess að rýma svæðið í kringum kirkjuna. Ég er brjáluð.“

Trump heimsótti kirkjuna stuttu eftir ávarp sitt til bandarísku þjóðarinnar í gær. Þar hét hann því að vera forseti „laga og reglu“ og sagðist vera bandamaður þeirra sem mótmæla friðsamlega. Mikil óeirða- og mótmælaalda hefur gengið yfir Bandaríkin síðustu daga. Mótmælin snúa einna helst að kerfisbundnu ofbeldi lögreglunnar í landinu gegn svörtu fólki, en kveikja mótmælanna var morðið á George Floyd. Hann lést þegar lögreglumaðurinn Derek Chauvin hélt hné sínu á hálsi hans í nokkrar mínútur, með þeim afleiðingum að hann lést.

Útgöngubann var ekki komið á

Í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, hafði útgöngubanni verið komið á frá klukkan sjö að kvöldi. Þrátt fyrir að klukkan væri aðeins um hálf sjö voru mótmælendur við kirkjuna beittir táragasi til þess að rýma svæðið.

Budde biskup segir að hún og samstarfsfólk hennar hefðu ekki verið látin vita af fyrirhugaðri komu Trumps í kirkjuna. Þau hafi komist á snoðir um málið í gegnum fréttamiðla.

Mariann Edgar Budde er yfir biskupakirkjunni í Washington D.C.Mark Wilson/Getty

„Forsetinn bað ekki þegar hann kom að kirkjunni, né viðurkenndi hann sársaukann sem nú ríkir í landinu okkar, þá sérstaklega hjá svörtu fólki sem veltir fyrir sér hvort nokkur í valdastöðu muni nokkurn tíma viðurkenna vinnu þeirra, og krefjast þess réttilega að 400 ára kerfisbundinn rasismi og muni líða undir lok,“ sagði Budde.

Hún segir jafnframt að biskupsdæmið í Washington standi með þeim sem mótmæla kynþáttafordómum og lögregluofbeldi.

„Ég einfaldlega trúi ekki mínum eigin augum,“ sagði Budde um gærkvöldið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.