Veður

Súld eða rigning sunnan- og vestan­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Bætir í sunnanáttina á morgun, þá má búast við strekkingi nokkuð víða.
Bætir í sunnanáttina á morgun, þá má búast við strekkingi nokkuð víða. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir sunnan golu eða kalda í dag þar sem súld eða rigning verður viðloðandi sunnan- og vestanlands með hita á bilinu átta til tólf stig.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings og þar segir að í norðausturfjórðungi landsins rofar til með björtu veðri og hita að sautján stigum.

„Bætir í sunnanáttina á morgun, þá má búast við strekkingi nokkuð víða. Áfram væta af og til um landið sunnan- og vestanvert. Þurrt og bjart norðaustanlands og hiti þar gæti náð 20 stigum, í fyrsta skipti á þessu ári og verður spennandi að sjá hvort sú spá rætist.

Ekki er að sjá neinar meiriháttar breytingar í spánni fyrir helgina (laugardag og sunnudag). Áttin áfram suðlæg og líkur á vætu, en áfram þurrt norðaustantil. Þó ber að geta þess að hitatölur síga niðurávið, því svalari loftmassi berst yfir landið.“

Spákortið fyrir hádegið líkt og það leit út í morgun.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Sunnan 8-15 m/s og súld eða rigning sunnan- og vestanlands, en bjart með köflum norðaustantil á landinu. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag: Sunnan 5-13 og smáskúrir, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag (hvítasunnudagur): Suðvestan 5-10 og skúrir, en þurrt og bjart á austanverðu landinu. Hiti 7 til 15 stig, mildast á Austurlandi.

Á mánudag (annar í hvítasunnu) og þriðjudag: Fremur hæg suðvestlæg átt og stöku skúrir, en yfirleitt þurrt austanlands. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag: Vestlæg átt og súld eða rigning, en úrkomulítið á Suðausturlandi og Austfjörðum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.