Erlent

Forsætisráðherrann fékk ekki að hitta móður sína fyrir andlátið

Kjartan Kjartansson skrifar
Reglur sem ríkisstjórn Rutte forsætisráðherra komu í veg fyrir að hann gæti hitt aldraða móður sína síðustu vikurnar áður en hún andaðist fyrr í þessum mánuði.
Reglur sem ríkisstjórn Rutte forsætisráðherra komu í veg fyrir að hann gæti hitt aldraða móður sína síðustu vikurnar áður en hún andaðist fyrr í þessum mánuði. Vísir/EPA

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að hann hafi ekki fengið að hitta 96 ára gamla móður sína síðustu vikurnar sem hún lifði vegna heimsóknatakmarkana sem eru í gildi á hjúkrunarheimilum vegna kórónuveirufaraldursins.

Móðir ráðherrans lést fyrir tæpum tveimur vikum en ekki af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Þá höfðu takmarkanir sem ríkisstjórn Rutte kom á verið í gildi í meira en tvo mánuði. Talsmaður Rutte segir forsætisráðherrann hafa fylgt öllum fyrirmælum yfirvalda.

Washington Post segir að tilfelli forsætisráðherrans sé dæmigert fyrir þær fórnir sem margir hafa þurft að færa til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar undanfarnar vikur og mánuði. Nú stendur þó til að slaka á takmörkunum á hjúkrunarheimilum.

Rutte hefur þótt til fyrirmyndar í hvernig bregðast eigi við faraldrinum á sama tíma og ýmsir kollegar hans í Evrópu hafa gerst sekir um að hafa fyrirmæli yfirvalda að engu. Alexander van der Bellen, forseti Austurríkis, þurfti að biðjast afsökunar opinberlega eftir að til hans sást á veitingastað meira en klukkustund eftir að reglur kváðu á um að þeim bæri að loka.

Á Írlandi á Leo Varadkar, forsætisráðherra, í vök að verjast vegna lautarferðar í garði nýlega. Hann heldur því fram að lautarferðin hafi ekki stangast á við fyrirmæli stjórnvalda jafnvel þó að í þeim hafi sérstaklega verið varað við því að fólk færi í lautarferðir.

Þá sætir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, harðri gagnrýni fyrir að standa við bakið á Dominic Cummings, aðalráðgjafa sínum, eftir að sá síðarnefndi varð uppvís að því að ferðast hundruð kílómetra frá London með eiginkonu sína sem sýndi einkenni Covid-19 og barn á sama tíma og stjórnvöld lögðu fast að almenningi að halda sig heima til að stöðva útbreiðslu faraldursins.


Tengdar fréttir

Ráðgjafi Johnsons segist ekki sjá eftir neinu

Dominic Cummings, helsti ráðgjafi forsætisráðherra Bretlands sagði í dag að um fjögur hundruð kílómetra langt ferðalag sitt, sem sagt er í trássi við kórónuveirutakmarkanir, hafi verið hugsað til þess að vernda fjölskyldu sína. 

Ráðgjafi Johnsons segist ekki sjá eftir neinu

Dominic Cummings, helsti ráðgjafi forsætisráðherra Bretlands sagði í dag að um fjögur hundruð kílómetra langt ferðalag sitt, sem sagt er í trássi við kórónuveirutakmarkanir, hafi verið hugsað til þess að vernda fjölskyldu sína. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×