Enski boltinn

Fyrirliði Watford mætir ekki til æfinga af ótta við veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Troy Deeney mætir ekki aftur til æfinga hjá Watford í dag.
Troy Deeney mætir ekki aftur til æfinga hjá Watford í dag. getty/Julian Finney

Troy Deeney, fyrirliði Watford, ætlar ekki að mæta til æfinga í vikunni af ótta við kórónuveiruna.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni mega byrja að æfa í dag eftir langt hlé, með miklum takmörkunum þó.

„Við eigum að byrja aftur að æfa í vikunni. Ég hef sagt að ég muni ekki mæta,“ sagði Deeney í YouTube þættinum Talk the Talk. Hann óttast um heilsu sonar síns sem er á fyrsta ári.

„Það þarf bara einn að smitast. Ég vil ekki koma með þetta heim. Sonur minn er fimm mánaða og hefur verið með öndunarerfiðleika. Ég vil ekki setja hann í meiri hættu. Þú kemur heim í skítugum æfingagalla. Ef ég set hann með fötum sonar míns og eiginkonu er líklegra að veiran komist í húsið.“

Deeney hefur látið í sér heyra að undanförnu og hefur miklar áhyggjur af því fótboltinn á Englandi sé að fara of snemma af stað. Hann hefur m.a. lýst yfir áhyggjum af því að leikmenn úr minnhlutahópum verði ekki prófaðir almennilega fyrir veirunni.

„Leikmenn úr minnihlutahópum eru fjórum sinnum líklegri til að fá veiruna og tvisvar sinnum líklegri til að vera með langvinna sjúkdóma,“ sagði Deeney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×