Kínversk stjórnvöld eru opin fyrir óháðri úttekt á viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum eftir að ríkjum tekst að hafa hemil á honum. Xi Jinping, forseti Kína, varði viðbrögð ríkisstjórnar sinnar á fundi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í dag þar sem forstjóri stofnunarinnar lofaði rannsókn eins fljótt og auðið yrði.
Ísland er á meðal 122 aðildarríkja WHO sem lögðu til að uppruni nýs afbrigðis kórónuveiru og viðbrögð ríkja heims við henni verði rannsökuð á ársþingi stofnunarinnar sem hófst í morgun og fer fram í gegnum fjarfundarbúnað. Bandarísk og áströlsk stjórnvöld hafa sérstaklega beint spjótum sínum að Kína og WHO vegna faraldursins.
Tedros Ghebreyesus, forstjóri WHO, fullyrti á þingi að rannsókn færi fram „við fyrsta mögulega tækifæri“ og að hún myndi hjálpa til við undirbúning fyrir farsóttir framtíðarinnar.
„Við drögum öll lærdóm af þessum faraldri. Öll lönd og allar stofnanir verða að kanna viðbrögð sín og læra af reynslunni. WHO er skuldbundin gegnsæi, ábyrgð og áframhaldandi umbótum,“ sagði Tedros.
Stjórnvöld í Beijing hafa fram að þessu lagst gegn rannsókn á uppruna og útbreiðslu veirunnar en Xi forseti sagði á þinginu í dag að WHO þyrfti að leiða slíka rannsókn með hlutlægni og sanngirni að leiðarljósi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Frá upphafi höfum við komið fram á opinn hátt með gegnsæi og ábyrgð,“ fullyrti Xi. Kínversk stjórnvöld neituðu þó í upphafi faraldursins að deila upplýsingum um veiruna með öðrum þjóðum og yfirvöld í Wuhan reyndu að þagga niður í læknum og fréttamönnum sem vöruðu við hættunni.
Tilkynnti Xi að kínversk stjórnvöld myndu verja tveimur milljörðum dollara til að aðstoða ríki heims til að berjast gegn kórónuveirunni og efnahagsáhrifum faraldursins, sérstaklega þróunarríkin.