Erlent

Segir WHO hafa gefið heimsbyggðinni nægan tíma til undirbúnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Dr. Tedros, forstjóri WHO, varði stofnunina fyrir gagnrýni Bandaríkjastjórnar á blaðamannafundi í dag. Myndin er úr safni.
Dr. Tedros, forstjóri WHO, varði stofnunina fyrir gagnrýni Bandaríkjastjórnar á blaðamannafundi í dag. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segir að stofnunin hafi gefið heimsbyggðinni nægan tíma til að búa sig undir kórónuveirufaraldurinn. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert WHO að blóraböggli fyrir faraldrinum og sakað stofnunina um að hafa klúðrað viðbrögðum við honum.

WHO lýsti yfir alþjóðlegu heilbrigðisneyðarástandi vegna nýs afbrigðis kórónuveiru sem hafði komið upp í Kína 30. janúar. Þá höfðu aðeins 82 smit greinst utan Kína og enginn látist.

Tedros Ghebreyesus, forstjóri WHO, kom stofnuninni og viðbrögðum hennar til varnar á blaðamannafundi í dag og sagði hana ekki hafa sóað neinum tíma. Ríki heims hafi fengið nægan tíma til að bregðast við yfirvofandi faraldri.

Trump Bandaríkjaforseti lét stöðva fjárframlög Bandaríkjastjórnar til WHO í tvo mánuði. Hann hefur sakaða stofnunina um að vera handbendi stjórnvalda í Beijing og að hafa ekki varað önnur ríki við nógu hratt. Gagnrýnendur Trump segja að hann reyni að dreifa athyglinni frá seinum og lélegum viðbrögðum eigin ríkisstjórnar með því að ráðast á WHO.

Auk þess að stöðva fjárveitingar til WHO eru Trump og ráðgjafar hans sagði grafa undan stofnunni á bak við tjöldin. Trump hefur ennfremur kynt undir samsæriskenningar um að veiran hafi verið framleitt á tilraunastofu í Kína, þvert á álit bandarísku leyniþjónustunnar.

Michael Ryan, yfirmaður neyðarmála hjá WHO, segir stofnunina hafa heyrt ítrekað frá fjölda vísindamanna sem hafa rannsakað genamengi veirunnar sem fullvissi hana um að veiran eigi sér náttúrulegan uppruna.


Tengdar fréttir

Leyniþjónustan varaði Trump ítrekað við kórónuveirunni

Donald Trump Bandaríkjaforseti var ítrekað varaður við hættu sem gæti stafað af nýju afbrigði kórónuveiru í daglegum kynningum leyniþjónustunnar í janúar og febrúar, á sama tíma og hann gerði lítið úr alvarleika mögulegs faraldurs. Forsetinn hefur reynt að kenna Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Kínverjum um hversu margir hafa látist í faraldrinum í Bandaríkjunum.

Trump-stjórnin sögð grafa undan WHO á bak við tjöldin

Bandaríkjastjórn hefur ekki aðeins stöðvað fjárframlög til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í miðjum kórónuveiruheimsfaraldri heldur eru Donald Trump forseti og nánustu ráðgjafar hans sagðir grafa undan stofnuninni á nokkrum vígstöðvum á bak við tjöldin. Undirróðurinn er sagður geta veikt stofnunina til lengri tíma litið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×