Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stendur við hótanir sínar um að ráðast á staði og byggingar sem hafa mikið menningarlegt gildi í Íran, geri Íranir árásir á Bandaríkin. Það gerði forsetinn fyrst í kjölfar þess að Bandaríkin réðu hershöfðingjann Qasem Soleimani af dögum í Írak í síðustu viku. Yfirvöld Íran hafa hótað hefndum vegna dauða Soleimani og sagði Trump þá að hershöfðingjar hans hefðu þegar valið 52 skotmörk sem Bandaríkin myndu granda í kjölfar árása á Bandaríkin.
Trump hefur verið bent á að það að gera vísvitandi árásir á menningarmannvirki sé stríðsglæpur, samkvæmt alþjóðalögum, Sameinuðu þjóðunum og Haag-sáttmálans um varðveislu menningarmannvirkja frá 1954.
Í Íran eru 24 staðir sem eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sagði fjölmiðlum ytra í gær að hvað sem Bandaríkin gerðu, þá yrði það í samræmi við alþjóðalög. Trump sagði það þó ekki rétt og stóð við hótanir sínar seinna í gær.
„Þeir mega myrða fólkið okkar. Þeir mega pynta og limlesta fólkið okkar. Þeir mega nota vegasprengjur og sprengja okkar fólk upp og við megum ekki snerta menningarstaði þeirra? Þetta virkar ekki þannig,“ sagði Trump í gærkvöldi.
Hann hótaði einnig að beita Írak refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum ef yfirvöld þar myndu vísa bandarískum hermönnum úr landi.
Sjá einnig: Hótar Írökum harkalegum viðskiptaþvingunum
Baráttan gegn Íslamska ríkinu hefur verið sett í biðstöðu vegna þeirrar miklu spennu sem er nú á svæðinu.
Demókratar hafa ekki tekið vel í orð forsetans og leita leiðtogar fulltrúadeildarinnar, þar sem Demókratar eru í meirihluta, leiða til að binda hendur Trump og reyna að takmarka völd hans þegar kemur að hernaðaraðgerðum gegn Íran. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sendi í gærkvöldi bréf á þingmenn flokksins og tilkynnti að hún ætlaði að leggja fram frumvarp þar að lútandi.
Verði það frumvarp að lögum þyrftu hernaðaraðgerðir að vera samþykktar af þinginu.