Erlent

Segir að banda­rískar her­stöðvar og her­menn séu nú rétt­lætan­leg skot­mörk

Eiður Þór Árnason skrifar
Kistur Qassem Soleimani og Abu Mahdi al-Muhandis, sem féll einnig í árás Bandaríkjamanna, voru bornar um götur Bagdad.
Kistur Qassem Soleimani og Abu Mahdi al-Muhandis, sem féll einnig í árás Bandaríkjamanna, voru bornar um götur Bagdad. Vísir/AP

Hassan Nasrallah, leiðtogi líbönsku Hezbollah-samtakanna, segir að bandarískar herstöðvar, herskip og hermenn séu réttlætanleg skotmörk eftir að háttsetti íranski hershöfðinginn Quassem Soleimani féll í drónaárás Bandaríkjamanna aðfaranótt föstudags.

Leiðtoginn segir það nú forgangsmál að reka bandarískan herafla í burtu úr heimshlutanum. Hann sagði í ræðu sinni í dag að bandaríski herinn myndi „fá að borga fyrir“ gjörðir sínar.

Nasrallah bætti við að sjálfsvígssprengjumenn sem að hans sögn hafi áður knúið Bandaríkjamenn til að yfirgefa svæðið séu enn til staðar og að þeim fari fjölgandi.

Fyrir framan þúsundir stuðningsmanna á fjöldafundi í suðurhluta Beirút sagði hann drápið á Soleimani vera ótvíræðan glæp sem muni umbreyta Mið-Austurlöndum.

Þúsundir vopnaðra skæruliða og óbreyttra borgara syrgðu íranska hershöfðingjann í gær og í dag. Líkkista hans hefur verið flutt um götur Bagdad, höfuðborgar Írak, og verður líkamsleifum hans í kjölfarið komið til Írans.

Spenna í heimshlutanum hefur farið vaxandi eftir dauða Soleimani fyrir helgi.

Íranir hafa hótað Bandaríkjunum grimmilegum hefndum og í gær var nokkrum flugskeytum skotið á græna svæðið í miðborg Bagdad þar sem sendiráð Bandaríkjanna er meðal annars staðsett.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að Bandaríkjaher hafi fimmtíu og tvö skotmörk í sigtinu í Íran ef stjórnvöld þar láti verða af hótunum sínum um að hefna dauða Qasim Solemani.


Tengdar fréttir

Bresk herskip fylgja breskum skipum í Persaflóa

Skip breska sjóhersins hafa verið kölluð til viðveru í Persaflóa vegna ólgunnar sem myndast hefur eftir að Bandaríski herinn réð Íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani af dögum.

Ráðist „hratt og harkalega“ á Íran ef Bandaríkin verða fyrir árás

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað við því að Bandaríkin hafi augun á 52 "skotmörkum“ í Íran og muni aðhafast "mjög hratt og mjög harkalega“ ef stjórnvöld í Íran komi til með að ráðast á Bandaríkjamenn eða annað sem gæti talist Bandaríkjamönnum mikilvægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×