Enski boltinn

„Liverpool er enn á uppleið og á eftir að ná toppnum undir stjórn Klopps“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Klopp er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool. vísir/getty
Raphael Honigstein, þýskur blaðamaður og höfundur ævisögu Jürgens Klopp, segir að Liverpool hafi ekki enn náð toppnum undir stjórn Klopps.

Liverpool varð Evrópumeistari á síðasta tímabili og er með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar um þriðjungi tímabilsins er lokið.

„Það er ekki óhugsandi að eftir 6-7 ár verðirðu kominn á endastöð eins og [Mauricio] Pochettino hjá Tottenham. En þekkjandi Klopp ágætlega held ég að hann hafi farið yfir mistökin sem hann gerði hjá Dortmund og muni reyna að gera hlutina aðeins öðruvísi, ef þetta fer í svipaða átt,“ sagði Honigstein í samtali við Vísi.

„Eins og ég sé þetta er Liverpool enn á uppleið á fjórða árinu undir hans stjórn. Liðið hefur ekki enn náð toppnum. Það er jafnvel hægt að segja að þeir hafi ekki spilað neitt sérstaklega vel á þessu tímabili, fyrir utan nokkra leiki. Það er enn mikið eftir.“

Liverpool hafði mjög hægt um sig á félagaskiptamarkaðnum. Honigstein segir að Klopp gæti þurft að hrista upp í leikmannahópi Liverpool næsta sumar.

„Ef þeir vinna Englandsmeistaratitilinn gæti honum fundist vera kominn tími til að gera 1-2 breytingar til að fríska upp á hópinn og koma í veg fyrir stöðnun. En ég held að það muni gerast eðlilega,“ sagði Honigstein.

Klippa: Liverpool á enn nóg eftir
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×