Fótbolti

„Enginn möguleiki að Wenger taki við Bayern“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wenger hefur ekki unnið við þjálfun síðan hann hætti hjá Arsenal í fyrra.
Wenger hefur ekki unnið við þjálfun síðan hann hætti hjá Arsenal í fyrra. vísir/getty
Engar líkur eru á því að Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, taki við Þýskalandsmeisturum Bayern München.

Þetta sagði Raphael Honigstein, þýskur blaðamaður og höfundur ævisögu Jürgens Klopp, í samtali við Vísi í gær.

„Eftir því sem ég kemst næst er enginn möguleiki á því að Wenger taki við,“ sagði Honigstein.

„Það hefur víða komið fram að Wenger og Karl-Heinz Rummenigge ræddust við í síma. Wenger trúði því kannski að honum hefði verið boðið starfið en Bayern er ekki á sama máli.“

Honigstein segir allt eins líklegt að Hansi Flick, sem stýrði Bayern til 4-0 sigurs á Borussia Dortmund á laugardaginn, fái stjórastarfið hjá þýsku meisturunum. Flick tók við Bayern eftir að Niko Kovac var látinn fara í síðustu viku.

„Eftir sigurinn á Dortmund, sem var svo sannfærandi, ákvað Bayern að það væri engin ástæða til að hafa bráðabirgðastjóra. Svo Wenger er ekki í umræðunni, jafnvel þótt Bayern hafi kannað stöðuna hjá honum,“ sagði Honigstein.

„Mér skilst að Wenger hafi aldrei verið líklegur kostur í stöðunni, öfugt við Ralf Rangnick, Thomas Tuchel og Erik ten Hag. Þeir tveir síðastnefndu sögðu Bayern að þeir væru ekki lausir núna. Hansi Flick á möguleika á að verða stjóri Bayern. Ef ekki, þá fær Bayern tækifæri til að vanda sig og taka sér tíma í að finna rétta manninn. Þeir vilja ekki fá stjóra fyrir 2-3 ár heldur einhvern sem getur verið þarna í 5-7 ár og gert eitthvað sérstakt. Mig grunar að þeir reyni við einhvern eins og Ten Hag eða Tuchel.“

Klippa: Wenger tekur ekki við Bayern
 


Tengdar fréttir

Kovac rekinn frá Bayern

Bayern München hefur látið þjálfarann Niko Kovac fara frá félaginu eftir aðeins 16 mánuði við stjórnvöllinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×