Enski boltinn

Guardiola: Leikmenn Liverpool láta sig stundum detta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola skaut á Liverpool-menn og sakaði þá um leikaraskap.
Guardiola skaut á Liverpool-menn og sakaði þá um leikaraskap. vísir/getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að leikmenn Liverpool beiti öllum brögðum til að vinna leiki, m.a. leikaraskap.

City sækir Liverpool heim í stærsta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni eftir viku. Bæði lið unnu nauma sigra í gær. Kyle Walker tryggði City sigur á Southampton, 2-1, og Sadio Mané sá til þess að Liverpool fengi öll stigin gegn Aston Villa þegar hann skoraði sigurmark Rauða hersins í uppbótartíma. Lokatölur 1-2, Liverpool í vil.

Mané fékk gult spjald fyrir leikaraskap í fyrri hálfleik gegn Aston Villa og Guardiola sakaði leikmenn Liverpool um að vera valta á fótunum inni í vítateig andstæðinganna.

„Stundum láta þeir sig detta. Stundum er þetta hæfileikinn til að skora ótrúleg mörk á síðustu stundu,“ sagði Guardiola eftir leikinn gegn Southampton í gær.

Hann hrósaði þrautseigju og sigurvilja Liverpool-manna sem eru eina ósigraða lið ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þegar við komum til búningsherbergja eftir leik var staðan jöfn hjá Liverpool en svo skoruðu þeir aftur. Þeir hafa gert þetta margoft. Þetta er hæfileiki,“ sagði Guardiola.

Liverpool er með sex stiga forskot á City og kemur sér í afar góða stöðu með sigri í leik liðanna næsta sunnudag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.