Erlent

Hand­tóku loft­lags­að­gerða­sinna í London

Sylvía Hall skrifar
Frá fyrri mótmælum hópsins.
Frá fyrri mótmælum hópsins. Vísir/EPA
Sjö konur og þrír karlmenn voru handteknir í aðgerðum lögreglu í London í gær. Aðgerðirnar beindust að loftslagsaðgerðahópnum Extinction Rebellion vegna fyrirhugaðra mótmæla þeirra í borginni á mánudag.

Í frétt Reuters um málið kemur fram að lögregla hafi brotið niður hurð í húsakynnum hópsins og handtekið fólkið. Var fólkið handtekið vegna gruns um raskanir almannahagsmunum með aðgerðum sínum en hópurinn hafði áður skipulagt ellefu daga mótmæli í aprílmánuði sem hafði áhrif á almenningssamgöngur og vegi.

Hópurinn hefur verið áberandi undanfarið en á fimmtudag vakti það heimsathygli þegar meðlimir reyndu að sprauta rauðlituðu vatni á breska fjármálaráðuneytið úr slökkviliðsbíl. 

Vatnið átti að tákna blóð og vekja athygli á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Uppátækið fór ekki betur en svo að meðlimir misstu stjórn á slöngunni og endaði vatnið mestallt á stéttinni.

Extinction Rebellion hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að handtökur gærdagsins væru til marks um auknar fyrirbyggjandi aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar og lögreglu og litu yfirvöld því á hópinn sem „alvöru mótstöðuafl“. Þau kalla eftir því að ríkisstjórnin beini sjónum sínum að loftslagsvandanum sem sé ógn við alla íbúa heimsins.


Tengdar fréttir

Jörðin lifir af en mannfólkið ekki

Það eru engin mannréttindi eftir til að berjast fyrir ef mannskepnunnar nýtur ekki lengur við á jörðinni. Þetta segir aðalframkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Máluðu brasilíska sendiráðið blóðrautt

Mótmælendur frá Útrýmingaruppreisninni ötuðu sendiráðið í rauðri málningu og límdu sig við glugga til að mótmæla eyðingu Amasonregnskógarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×