Erlent

Leiðtogar funda í New York um loftslagsvá

Kjartan Kjartansson skrifar
Ungt fólk leiddi fjöldamótmæli til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum í New York og fjölda annarra borga um allan heim á föstudag.
Ungt fólk leiddi fjöldamótmæli til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum í New York og fjölda annarra borga um allan heim á föstudag. Vísir/EPA
Leiðtogar um sextíu ríkja, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, koma saman til fundar um lausnir í loftslagsmálum hjá Sameinuðu þjóðunum í New York í dag. Nokkur stór ríki eins og Bandaríkin og Brasilía verða án fulltrúa en aðeins þeir leiðtogar sem mæla fyrir raunverulegum aðgerðum eru á mælendaskrá.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, boðaði til fundarins í dag og segist hann búast við því að nokkur fjöldi aðgerða til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum og að ná kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina verði kynntar þar.

Aðeins leiðtogum ríkja sem koma með aðgerðaáætlarnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er hins vegar boðið að tala á fundinum. Það útilokar ríki eins og Bandaríkin, Brasilíu, Ástralíu og Sádi-Arabíu sem hafa öll dregið lappirnar í loftslagsmálum og í sumum tilfellum unnið markvisst gegn aðgerðum.

„Fólk getur aðeins talað ef það býður upp á jákvæð skref. Það er ígildi miða. Ekki koma með slæmar fréttir,“ sagði Guterres, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Loftslagsfundurinn kemur fast á hæla mótmæla milljóna manna um allan heim í alþjóðlegu loftslagsverkfalli sem ungir aðgerðasinnar leiddu á föstudag, þar á meðal á Íslandi.

Í aðdraganda fundarins kynntu alþjóðlegar vísindastofnanir nýjar samantektir um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist um fimmtung frá 2015 til 2019 og styrkur þeirra í lofthjúpi jarðar tryggir að hlýnun á eftir að halda áfram um áratugaskeið til viðbótar. Þá eru áhrif loftslagsbreytinga nú sögð koma hraðar fram en áður.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands eru á meðal leiðtoganna sem taka til máls í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti verður í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna en hann ætlar að taka þátt í ráðstefnu um trúfrelsi í staðinn.


Tengdar fréttir

Orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga koma hraðar fram

Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um fimmtung frá 2015 til 2019 borið saman við árin fimm á undan. Styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar þýðir að hnattræn hlýnun heldur áfram í áratugi, óháð aðgerðum manna til að draga úr losun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×