Erlent

Máluðu brasilíska sendiráðið blóðrautt

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum Útrýmingaruppreisnarinnar í London fyrr í sumar.
Frá mótmælum Útrýmingaruppreisnarinnar í London fyrr í sumar. Vísir/Getty
Loftslagsmótmælendur í London köstuðu rauðri málningu á brasilíska sendiráðið til að mótmæla eyðingu Amasonregnskógarins og því sem þeir kalla ofbeldi gegn frumbyggjum þar í dag. Tveir mótmælendanna límdu sjálfa sig á glugga sendiráðsins.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar voru mótmælendurnir frá Útrýmingaruppreisninni, róttækum hópi loftslagsaðgerðasinna sem hafa meðal annars raskað samgöngum í borginni í sumar. Samtökin segja að mótmælunum hafi verið beint að ríkisstyrktum mannréttindabrotum og eyðingu vistkerfisins.

Athuganir hafa bent til þess að eyðing Amasonskógarins hafi stóraukist eftir að hægriöfgamaðurinn Jair Bolsonaro tók við embætti forseta Brasilíu í byrjun árs. Undir stjórn hans hefur verið slakað á eftirliti með ólöglegum ruðningi á skóginum.

Tveir aðgerðasinnar klifruðu upp á gler yfir inngangi sendiráðsins í London og tveir aðrir límdu sig við glugga. Rauð handaför og rákir voru um alla veggi sendiráðsins auk slagorða á borð við „Ekki meira frumbyggjablóð‟ og „Fyrir óbyggðirnar‟.

Útrýmingaruppreisnin segir að sambærileg mótmæli eigi að fara fram gegn sendiráðum brasilíu í Síle, Portúgal, Frakkland, Sviss og Spáni í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×