Íslenski boltinn

Sjö í leikmannahópi KR höfðu orðið Íslandsmeistarar með öðru liði áður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn Jónsson með bland í poka eftir sigurinn á Hlíðarenda í gær. Hann varð Íslandsmeistari í annað sinn í gær en hann var í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks 2010.
Kristinn Jónsson með bland í poka eftir sigurinn á Hlíðarenda í gær. Hann varð Íslandsmeistari í annað sinn í gær en hann var í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks 2010. vísir/bára

Fimm í leikmannahópi KR höfðu áður orðið Íslandsmeistarar með liðinu. Sjö leikmenn í hópnum urðu meistarar í fyrsta skipti með KR í gær en höfðu áður orðið Íslandsmeistarar með öðru liði á Íslandi.

KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með 0-1 sigri á Val á Origo-vellinum í gær.

Í liði KR eru þrír leikmenn úr fyrsta og eina Íslandsmeistaraliði Breiðabliks; Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Kristinn Jónsson og Finnur Orri Margeirsson.

Arnór Sveinn og Kristinn hafa verið fastamenn í vörn KR sem hefur haldið hreinu í fjórum leikjum í röð og fengið á sig fæst mörk allra í Pepsi Max-deildinni (20). Finnur Orri hefur leikið tólf leiki í sumar, þar af sjö í byrjunarliði.

Pálmi Rafn tryggði KR titilinn á gamla heimavellinum sínum. vísir/bára

Pablo Punyed varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2014. Liðið fór þá í gegnum Íslandsmótið án þess að tapa leik.

Kristján Flóki Finnbogason, sem kom til KR á miðju sumri, varð Íslandsmeistari með FH 2015 og 2016.

Pálmi Rafn Pálmason varð Íslandsmeistari með Valsmönnum 2007, eða fyrir tólf árum. Hann skoraði sigurmark KR á sínum gamla heimavelli í gær.

Þá varð danski framherjinn Tobias Thomsen Íslandsmeistari með Val í fyrra.

Óskar Örn Hauksson, Aron Bjarki Jósepsson og Gunnar Þór Gunnarsson urðu Íslandsmeistarar í þriðja sinn með KR í gær og þeir Atli Sigurjónsson og Skúli Jón Friðgeirsson í annað sinn.

Alls áttu því tólf leikmenn KR Íslandsmeistaratitil á ferilskránni fyrir gærdaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.