Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson eftir að landa 27. Íslandsmeistaratitli KR: Ég er hrærður yfir þessu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kóngurinn í KR.
Kóngurinn í KR. vísir/bára
„Ég veit það ekki, ég er hrærður yfir þessu. Mér finnst ótrúlega gaman að vinna hérna, að klára þetta sjálfir og vinna leikinn. Því þá var þetta aldrei nein spurning og við komum hingað til að vinna,“ sagði tárvotur Rúnar Kristinsson eftir 1-0 sigur KR á Val í kvöld. Sigurinn tryggði KR 27. Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu og er þetta í allavega annað skiptið sem KR fagnar titlinum á Hlíðarenda, heimavelli erkifjenda þeirra í Val. „Við komum hingað til að sækja, ætluðum okkur að pressa Val og ekki gefa þeim neinn tíma til að spila sinn leik. Við gerðum það alveg ofboðslega vel,“ sagði Rúnar um leik kvöldsins.Rúnar var spurður út í hvað titillinn þýddi fyrir hann og KR en áður en hann kom í viðtal gekk hann á alla starfsmenn KR sem og leikmenn og knúsaði þá innilega, með tárin í augunum. „Tárin streyma bara hérna, þetta er ótrúlega gaman. Að koma til baka eftir að ég er búinn að vera úti í nokkur ár og gera þetta á tveimur árum, að búa til sigurlið í Vesturbænum. Mér finnst það ótrúlega gaman. Það er gott að vinna fyrir þennan klúbb og fyrir fólkið í Vesturbænum,“ sagði Rúnar með tárin í augunum.Hann hélt áfram. „Ég er ótrúlega stoltur af mér, Bjarna (Guðjónssyni), Stjána (Kristjáni Finnbogasyni, markmannsþjálfara), öllu teyminu mínu og ekki síst leikmönnunum sem eru tilbúnir að hlusta á okkur, fylgja okkar fyrirmælum og vinna eftir því sem við leggjum upp. Þetta er bara góð eining og eins og ég sagði við strákana í dag, sama og ég sagði fyrir fyrsta leikinn í deildinni, að ef við sýnum stuðningsmönnum okkar virkilega þykir vænt um klúbbinn okkar og merkið, förum í allar tæklingar ...“ Fleiri urðu þau orð ekki frá Rúnari að þessu sinni þar sem hann var rifinn úr viðtalinu af leikmönnum sínum og tolleraður.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.