Erlent

Rógburði um Omar sem Trump magnaði upp á Twitter eytt

Kjartan Kjartansson skrifar
Omar hefur ítrekað verið skotspónn Trump forseta.
Omar hefur ítrekað verið skotspónn Trump forseta. Vísir/EPA
Tísti þar sem logið var upp á þingkonu Demókrataflokksins í Bandaríkjunum sem er múslimi að hún hefði farið að skemmta sér á afmæli hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 var eytt eftir að Donald Trump forseti hafði áframtíst því til milljóna fylgjenda sinna á miðlinum.

Í tístinu sem ekki er lengur aðgengilegt sást Ilham Omar, fulltrúadeildarþingkona demókrata frá Minnesota, dansandi í hópi fólks. Terrence K. Williams, grínisti og stuðningsmaður Trump sem hefur komið fram á Fox News-sjónvarpsstöðinni, fullyrti í tístinu að Omar hefði „skemmt sér á afmæli 11. september“ og setti það í samhengi við að Trump hefði verið gagnrýndur fyrir að spila golf þann dag.

Skjáskot
Trump áframtísti myndbandinu og fullyrðingum Williams með þeim orðum að Omar ætti eftir að vinna þingsæti í Minnesota fyrir Repúblikanaflokkinn og að hún væri nýtt andlit Demókrataflokksins. Forsetinn hefur ítrekað reynt að mála róttækustu þingmenn flokksins sem helstu málsvara hans.

Myndbandið af Omar var þó ekki frá 11. september. Jack Tapper, fréttamaður CNN-sjónvarpsstöðvarinnar, bendir á að aðgerðasinni hafi tekið myndbandið af Omar að dansa á árlegri ráðstefnu þingflokks svartra þingmanna í Bandaríkjaþingi 13. september.

„Þetta er algerlega rangt, þetta er rógburður og veldur örugglega öryggisáhyggjum,“ tísti Tapper.

Þetta er hvorki í fyrsta skipti sem Trump vegur að Omar né sem hann áframtístir vafasömum tístum frá Williams. Omar, sem fæddist í Sómalíu en kom sem flóttamaður til Bandaríkjanna sem unglingur, var ein fjögurra þeldökkra þingkvenna sem Trump gaf í skyn að ættu að fara „til síns heima“ fyrr á þessu ári. Hinar þrjár þingkonurnar fæddust allar í Bandaríkjunum. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fordæmdi ummæli forsetans.

Þá áframtísti Trump samsæriskenningu frá Williams nýlega um dauða Jeffrey Epstein, auðkýfings sem var ákærður fyrir mansal á ungum stúlkum, sem hengdi sig í fangelsi í New York. Bendlaði grínistinn Bill Clinton við dauða Epstein.

Donie O'Sullivan, fréttamaður CNN, segir að talsmaður Twitter hafi fullyrt að Williams hafi sjálfur eytt tístinu um Omar sem Trump áframtísti fyrr í dag.

Fréttin var uppfærð eftir að talsmaður Twitter staðfesti að Williams hefði sjálfur eytt tístinu um Omar. Upphaflega kom fram í henni að svo virtist sem að Twitter hefði eytt tístinu og að það væri ekki lengur aðgengilegt.


Tengdar fréttir

Áhyggjur af öryggi Omar

Demókratar sem sækjast eftir útnefningu flokksins til forsetaframboðs sem og aðrir kjörnir fulltrúar flokksins fordæmdu harkalega í gær hátterni þeirra sem sóttu fjöldafund Donalds Trump forseta í Norður-Karólínu í fyrrinótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×