Enski boltinn

Hetjan Adrian segir ákvörðunin að fara í Liverpool sé „sú besta sem hann hefur tekið á ævinni“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Adrian fagnar.
Adrian fagnar. vísir/getty
Spænski markvörðurinn, Adrian, segir að ákvörðunin að semja við Liverpool hafi verið sú besta sem hann hefur tekið á ævinni.

Adrian ákvað að semja ekki á nýjan leik við West Ham og var hann því án liðs framan af sumri áður en Liverpool bauðst óvænt eftir að Simon Mignolet fór til Club Brugge.

Í leiknum um Ofurbikarinn, er Liverpool hafði betur gegn Chelsea í vítaspyrnukeppni, varði Adrian síðustu spyrnu Tammy Abraham og tryggði Liverpool því sigurinn.

„Fyrir mánuði síðan var ég að æfa sjálfur á Spáni með markmannsþjálfara og vini mínum sem hjálpaði mér,“ sagði Adrian eftir að hafa orðið hetjan í Istanbul.

„Fyrir tveimur vikum vissi ég ekki hvar ég myndi spila, hvort að það yrði á Spáni eða í annari deild. Svo kom Liverpool og spurði mig. Það er besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.“







„Ég vissi að ég myndi fá tækifæri en auðvitað ekki svo fljótt. Ég er mjög ánægður að vera hér og stoltur af leikmönnunum sem hafa hjálpað mér frá byrjun.“

„Þeir tóku á móti mér opnum örmum og hafa látið mér líða eins og góðum vin. Þetta var rosalegt kvöld,“ sagði Spánverjinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×