Enski boltinn

Hetjan Adrián: „Þetta hefur verið brjáluð vika“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adrián ver síðustu spyrnu Chelsea frá Tammy Abraham.
Adrián ver síðustu spyrnu Chelsea frá Tammy Abraham. vísir/getty

„Velkominn til Liverpool, ha? Þetta hefur verið brjáluð vika. Ég er mjög glaður með sigurinn og ánægður fyrir hönd stuðningsmannanna,“ sagði spænski markvörðurinn Adrián eftir leik Liverpool og Chelsea í Ofurbikar Evrópu í Istanbúl í kvöld.

Liverpool vann í vítaspyrnukeppni, 5-4. Adrián varði síðustu spyrnu Chelsea í vítakeppninni frá Tammy Abraham.

Þetta var fyrsti leikur Adriáns í byrjunarliði Liverpool. Hann samdi við Liverpool á mánudaginn í síðustu viku eftir að hafa verið án félags síðan samningur hans við West Ham United rann út fyrr í sumar.

Adrián var ætlað að vera varamarkvörður fyrir Alisson Becker. Brassinn meiddist hins vegar í leiknum gegn Norwich City á föstudaginn og Adrián fékk þá sitt fyrsta tækifæri með Liverpool.

Spánverjinn byrjaði svo í markinu í kvöld. Hann fékk á sig vítaspyrnu í framlengingunni sem Jorginho skoraði úr og jafnaði í 2-2.

„Ég reyndi að stoppa þegar ég sá hann [Abraham] en framherjar eru svo klókir,“ sagði Adrián um vítið sem hann fékk á sig. Hann bætti heldur betur upp fyrir það með því að verja frá Abraham í vítakeppninni.

Þetta er fyrsti titilinn sem Adrián, sem er 32 ára, vinnur á ferlinum. Hann er frá Sevilla og hóf ferilinn með Real Betis. Adrián fór til West Ham 2013 þar sem hann lék í sex ár. Hann lék 150 leiki fyrir West Ham í öllum keppnum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.