Erlent

Bolsonaro vænir geimstofnun sína um lygar um eyðingu Amason

Kjartan Kjartansson skrifar
Allt er í sóma í Brasilíu að mati Bolsonaro, sama hvað vísindastofnanir eða Sameinuðu þjóðirnar segja.
Allt er í sóma í Brasilíu að mati Bolsonaro, sama hvað vísindastofnanir eða Sameinuðu þjóðirnar segja. AP/Eraldo Peres
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sakar geimstofnun landsins að ljúga til um umfang eyðingar Amasonfrumskógarins. Stofnunin skaði orðspor landsins með því að birta gögn um það sem hún segir mikla aukningu í skógareyðingu.

Brasilíska geimstofnunin Inpe birti gervihnattargögn í vikunni sem sýndu að meira en þúsund ferkílómetrar regnskógar hefðu verið ruddir fyrstu fimmtán daga júlímánaðar og að það væri aukning um 68% miðað við allan júlímánuð í fyrra, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Við þessar tölur vill Bolsonaro forseti ekki fella sig. Hann fullyrti við erlenda fréttamenn í gær að tölurnar endurspegluðu ekki raunveruleikann og að hann ætli sér að ræða við forstjóra stofnunarinnar til að ræða málið.

Inpe stendur við niðurstöður sínar og segir tölurnar 95% áreiðanlegar. Bolsonaro hefur rekið stefnu sem hefur liðkað fyrir því að skógurinn sé ruddur, oft fyrir nautgriparæktun. Þannig hefur verið slakað á eftirliti með ólöglegu skógarhöggi.

Hægriöfgamaðurinn Bolsonaro fullyrti einnig við erlendu fréttamennina en hungur þekktist ekki í Brasilíu þrátt fyrir að matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætli að um 5,2 milljónir Brasilíumanna búið við hungur.


Tengdar fréttir

Skógruðningur í Amazon regnskóginum mikið áhyggjuefni

Skógruðningur brasilíska Amazon skógarins í maí mánuði var sá mesti hingað til eftir að nýtt mælingakerfi var tekið upp til að fylgjast með eyðingu skógar, sem hefur valdið auknum áhyggjum yfir því að Jair Bolsonaro, forseti landsins, leyfi ólöglegt skógarhögg, búskap og námuvinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×