Erlent

Eyðing Amasonfrumskógarins hátt í tvöfaldast undir Bolsonaro

Kjartan Kjartansson skrifar
Amazonfrumskógurinn bindur gríðarlegt magn kolefnis. Gengið er á hann hratt með ólöglegu skógarhöggi og búgriparækt.
Amazonfrumskógurinn bindur gríðarlegt magn kolefnis. Gengið er á hann hratt með ólöglegu skógarhöggi og búgriparækt. Vísir/EPA
Um 920 ferkílómetrum Amasonskógarins í Brasilíu var eytt í síðasta mánuði en það er 88% aukning frá sama mánuði í fyrra. Gagnrýnendur Jairs Bolsonaro, forseta Brasilíu, fullyrða að árásir hans á umhverfisstofnun landsins gefi skógarhöggsmönnum og búgarðseigendum byr undir báða vængi að ganga á skóginn.

Gögn brasilísku geimvísindastofnunarinnar benda til þess að skógareyðing í Amason hafi numið 4.565 ferkílómetrum á ellefu mánuðum frá síðasta sumri. Það er 15% aukning frá sama tímabili árið áður, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bolsonaro forseti hefur boðað stórfellda nýtingu á Amasonfrumskóginum frá því að hann tók við embætti í janúar. Þá hefur hann gagnrýnt umhverfisstofnun landsins harðlega fyrir að gefa út of margar sektir vegna skógarhöggs þar.

Ricardo Salles, umhverfisráðherra Brasilíu, segir að gripið verði til aðgerða til að taka á ólöglegu skógarhöggi.

Þrýstingur er á brasilísk stjórnvöld að koma í veg fyrir eyðingu Amasonskógarins. Þannig eru ákvæði um það að finna í fríverslunarsamningi sem Evrópusambandið og Mercosur, efnahagsbandalag Suður-Ameríkuríkja, handsöluðu í síðustu viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.