Íslenski boltinn

Valur og Gary Martin komast að samkomulagi um starfslok

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gary Martin í leiknum gegn ÍA.
Gary Martin í leiknum gegn ÍA. vísir/daníel
Gary Martin mun yfirgefa herbúðir Vals eftir einungis hálft ár á Hlíðarenda en félagið hefur komist að samkomulagi við Gary um starfslok.

Valsmenn tilkynntu þetta á vef sínum nú undir kvöld en þar stendur að báðir aðilar séu sáttir með málalok.

„Ég kveð þennan leikmannahóp og þetta félag með söknuði. Þetta er stór klúbbur eins og árangur undanfarinna ára sýnir. Gagnvart mér var staðið við allt og auk þess var öll aðstaða og búnaður fyrsta flokks,“ sagði Gary í tilkynningunni.

„Það er bara stundum þannig að menn eiga ekki skap saman. Þannig var það með okkur Óla. Og þá þarf að taka á því. Það erum við að gera með því að semja um starfslok þannig að ég geti spilað þar sem óskað er eftir kröftum mínum. Ég vona að félaginu gangi allt í haginn,“ bætti hann við.

Gary hefur verið í frystikistunni hjá Val eftir að hafa skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum en hann hefur meðal annars verið bannað að mæta á æfingar hjá félaginu.

„Við erum ólíkir karakterar og með svolítið ólíkar áherslur og því varð að samkomulagi að slíta samningi aðila með samkomulagi. Gary er góður drengur og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.

Valur hefur byrjað tímabilið illa en liðið er einungis með fimm stig eftir fyrstu fjóra leikina en fleiri fréttir af málinu má lesa hér að neðan.

Uppfært 18.21: Gary Martin vildi ekki tjá sig í samtali við Vísi er leitað var eftir enn frekari viðbrögðum hans við starfslokunum. Hann sagði að allt væri komið fram sem þyrfti að koma fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×