Enski boltinn

Vandræðalegt að horfa á United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn United voru sér til skammar í dag að mati Neville
Leikmenn United voru sér til skammar í dag að mati Neville vísir/getty
Manchester United var niðurlægt af Everton á Goodison Park í dag þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni. Everton vann 4-0 sigur.

Gary Neville, knattspyrnusérfræðingur Sky Sports og fyrrum leikmaður United, var bálreiður í leikslok.

„Ég er brjálaður, ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Neville á Sky eftir leikinn.

„Ég hef oft sagt það um félög að ef þau eru með illgresi í garðinum hjá sér þá þarf að fara og rífa það upp. En það er eitthvað svakalegt illgresi með tökin á þessu félagi og er að ráðast í grunn þess.“

„Stuðningsmenn United stóðu með Jose Mourinho en á endanum fengu þeir nóg og vildu hann burt. Stuðningsmenn United munu ekki vilja Ole Gunnar Solskjær burt svo höfuð leikmannanna eru svo sannarlega í húfi hér.“

„Everton hljóp fjórum kílómetrum meira en Manchester United í þessum leik. Ef við horfum til Liverpool, erkifjenda United, þá gefa þeir allt fyrir hvern sentimetra inni á vellinum.“

„Það var vandræðalegt að horfa á suma af leikmönnum United í dag. Ég er algjörlega brjálaður,“ sagði Gary Neville.

United hefur ekki langan tíma til þess að sleikja sárin, nágrannarnir í Manchester City bíða í stórleik á miðvikudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×