Enski boltinn

Pabbi Mata passaði að Guardiola og Mourinho myndu ekki hittast á veitingastaðnum sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola og Mourinho hafa ólíka sýn á fótbolta en matarsmekkur þeirra er svipaður.
Guardiola og Mourinho hafa ólíka sýn á fótbolta en matarsmekkur þeirra er svipaður. vísir/getty
Juan Manuel Mata, faðir Juans Mata, leikmanns Manchester United, hefur greint frá því að Pep Guardiola og José Mourinho hafi oft borðað á veitingastaðnum hans í Manchester á sama tíma. Hann passaði þó upp á að þessir fornu fjendur myndu ekki hittast.

Mata eldri opnaði veitingastað í Deansgate í Manchester 2016, tveimur árum eftir að sonur hans gekk í raðir United.

Guardiola hefur verið knattspyrnustjóri Manchester City síðan 2016 og Mourinho var stjóri United á árunum 2016-18. Staðurinn hans Mata eldri var vinsæll hjá þeim báðum en hann passaði alltaf upp á að hafa þá í sitt hvoru herberginu þegar þeir snæddu þar á sama tíma.

„Guardiola er reglulegur gestur. Hann kemur með fjölskyldunni og er ánægður hérna,“ sagði Mata eldri.

„Mourinho kom a.m.k. einu sinni á tveggja vikna fresti. Þeir voru stundum hérna á sama tíma en ég sá til þess að þeir myndu ekki hittast með því að setja þá ekki í sama herbergi.“

Mata yngri borðar oft á staðnum hjá pabba sínum og sömu sögu er að segja af löndum hans hjá United, David De Gea og Ander Herrera.

Ekki liggur fyrir hvar Mata leikur á næsta tímabili en samningur hans við United rennur út í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×